Viðskipti erlent

Telur Breta hafa skotið sig í fótinn með útgöngunni

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Christine Lagarde, framkvæmdastýra AGS.
Christine Lagarde, framkvæmdastýra AGS. vísir/epa
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) lækkaði í gær hagvaxtarspá Bretlands fyrir næsta ár. Ástæðan er sú að AGS telur Breta hafa skotið sig í fótinn með því að ákveða að hverfa á brott úr Evrópusambandinu.

Þá telur AGS að ákvörðunin hafi slæm áhrif á hagkerfi Bretlands, að minnsta kosti til skemmri tíma litið. AGS hvatti Breta eindregið til áframhaldandi vistar innan Evrópusambandsins í aðdraganda kosninganna.

Hagvaxtarspáin gerir nú ráð fyrir 1,3 prósenta hagvexti á árinu 2017 en fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna var 2,2 prósenta hagvexti spáð. Hins vegar útilokar AGS að brotthvarfið muni orsaka kreppu.

Spáin er ekki ósvipuð nýrri hagvaxtarspá framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þar er spáð 1,1 prósents hagvexti á næsta ári með þeim fyrirvara að ef allt fer á versta veg við úrsögnina gæti hagvöxtur orðið minni, jafnvel enginn.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. júlí






Fleiri fréttir

Sjá meira


×