Viðskipti erlent

Pundið ekki lægra í mánuð

Sæunn Gísladóttir skrifar
Gengi pundsins hefur fallið um 14 prósent frá því að kosið var í Brexit-kosningunum þann 23. júní.
Gengi pundsins hefur fallið um 14 prósent frá því að kosið var í Brexit-kosningunum þann 23. júní. Nordicphotos/AFP
Gengi sterlingspunds gagnvart Bandaríkjadal mældist 1,296 við lokun markaða í gær og hafði ekki verið lægra í rúman mánuð. Gengi pundsins veiktist um 0,4 prósent í gær.

Business Insider greinir frá því að sterkara gengi dollars og niðursveifla í húsnæðissölu í Bretlandi hafi valdið þróuninni. Nýjar tölur frá Royal Institute of Chartered Surveyors sýndu í gær að húsnæðissala í Bretlandi hefði ekki dregist jafn mikið saman á stuttu tímabili síðan í efnahagskreppunni árið 2008.

Gengi pundsins hefur nú fallið um fjórtán prósent frá því að Bretar kusu að yfirgefa Evrópusambandið í lok júní, og hefur ekki verið lægra síðan árið 1985. Eitt pund jafngildir nú 154 íslenskum krónum, samanborið við yfir 200 krónur á síðasta ári.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×