Handbolti

Guðmundur hafði ekkert að gera með afsögn Wilbek

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frá vinstri eru Christensen, Guðmundur og Wilbek.
Frá vinstri eru Christensen, Guðmundur og Wilbek. Vísir/Getty
Það var alfarið ákvörðun Ulrik Wilbek að stíga til hliðar og hætta í starfi sínu sem íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins.

Þetta segir Morten Stig Christensen í tilkynningu sem sambandið gaf út eftir að Wilbek tilkynnti afsögn sína.

Danskir fjölmiðlar fullyrtu fyrir helgi að Wilbek hafi fundað með leikmönnum danska landsliðsins, bæði á meðan Ólympíuleikunum í Ríó stóð og líka eftir þá, um þann möguleika að reka Guðmund Guðmundsson úr starfi landsliðsþjálfara.

Því neitaði Wilbek alfarið en hann ákvað engu að síður að hætta eftir umfjöllun dönsku fjölmiðlanna um málið síðustu daga.

Sjá einnig: Wilbek hættur til að gefa Guðmundi vinnufrið

Danir unnu sem kunnugt er gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó fyrir rétt rúmri viku síðan. Það voru fyrstu gullverðlaun danska karlalandsliðsins á Ólympíuleikum og talið eitt mesta íþróttaafrek Dana frá upphafi.

Wilbek sagði í tilkynningu að hann vildi skapa Guðmundi eins gott vinnuumhverfi og mögulegt er og því myndi hann stíga til hliðar.

Valdabarátta í danska landsliðinu: Spurði hvort ætti að reka Guðmund daginn eftir úrslitaleikinn

Christensen segir að Guðmundur hafi hvergi komið nærri þeirri ákvörðun.

„Hann skipti sér ekki af málinu. Ég ræddi við Guðmund vegna þessa eins og ég ræddi við marga um þetta mál. En Ulrik tók ákvörðun sína alfarið sjálfur,“ sagði framkvæmdastjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×