Handbolti

Gunnar: Urðum bensínlausir

Ingvi Þór Sæmundsson í Schenker-höllinni skrifar
Gunnar stýrði Haukum í níunda sinn í Evrópukeppni í dag.
Gunnar stýrði Haukum í níunda sinn í Evrópukeppni í dag. vísir/anton
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var að vonum vonsvikinn að sjá sína menn glutra niður átta marka forystu gegn sænska liðinu Alingsås í fyrri leik liðanna í 2. umferð EHF-bikarsins í dag.

Haukar leiddu með átta mörkum, 19-11, þegar 23 mínútur voru eftir af leiknum en þurftu á endanum að berjast fyrir því að ná jafnteflinu.

„Við vorum frábærir í 40 mínútur. Það fór rosaleg orka í þetta og við urðum svolítið bensínlausir. Ég hefði viljað fá meira innlegg frá þeim sem komu af bekknum. Það vantaði að fá einn ferskan til að stíga upp,“ sagði Gunnar eftir leik.

„Ég er ánægður með leikinn. Við vorum að spila á móti frábæru liði og ég er stoltur af strákunum. Við ætluðum að vinna þetta, það var markmiðið og ég er auðvitað svekktur að missa niður átta marka forystu.“

Þjálfarinn var þó sáttur við síðustu mínútur leiksins en Haukar skoruðu þrjú af síðustu fjórum mörkum leiksins.

„Við vorum komnir tveimur mörkum undir í lokin en það er karakter að vinna þetta upp. Við duttum of langt niður og það má ekki gleyma því að við vorum á Akureyri á miðvikudaginn og komum heim seint um nóttina. Það hjálpaði okkur ekki,“ sagði Gunnar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×