Handbolti

Íslendingaliðið á Rivíerunni henti frá sér leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karen Knútsdóttir.
Karen Knútsdóttir. vísir/pjetur
Íslendingaliðið OGC Nice náði ekki að vinna sinn annan leik í röð í frönsku kvennadeildinni í handbolta í kvöld en með liðinu spila landsliðskonurnar Karen Knútsdóttir og Arna Sif Pálsdóttir.

OGC Nice varð að sætta sig við átta marka tap á móti Cercle Dijon, 32-24, á heimavelli sínum þrátt fyrir að vera í frábærum málum í fyrri hálfleiknum.

Karen Knútsdóttir og Arna Sif Pálsdóttir komust báðar á blað í þessum leik. Karen skoraði tvö mörk úr þremur skotum en Arna Sif nýtti sitt eina skot. Karen spilaði í 24 mínútur en Arna Sif fékk aðeins níu mínútur í kvöld.

Karen Knútsdóttir og Arna Sif Pálsdóttir komu Nice í 15-9 með tveimur mörkum í röð þegar sex mínútur voru til hálfleiks en þá fór allt að ganga á afturfótunum.

Liðsmenn Cercle Dijon skoruðu fimm síðustu mörk fyrri hálfleiksins og minnkuðu muninn í eitt mark, 15-14.

Hálfleiksræðan heppnaðist ekki vel hjá þjálfara Karenar og Örnu því Cercle Dijon tók upp þráðinn frá því fyrir hlé.

Cercle Dijon var þannig komið fimm mörkum yfir, 24-19, eftir sextán mínútna leik í seinni hálfleiknum og var þar með búið að vinna 22 mínútna kafla með 11 marka mun, 15-4.

Karen minnkaði muninn í 29-24 með seinna marki sínu sem kom fimm mínútum fyrir leikslok. Það var hinsvegar síðasta mark liðsins og leikurinn tapaðist á endanum með átta marka mun, 32-24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×