Handbolti

Stelpurnar hans Þóris unnu sigur á Rússum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þórir á góðri stundu
Þórir á góðri stundu
Þórir Hergeirsson og leikmenn hans í norska kvennalandsliðinu í handknattleik mættu því danska á æfingamóti í Noregi í dag. Liðin undirbúa sig af krafti fyrir EM í Svíþjóð sem hefst í byrjun desember.

Norsku stelpurnar unnu góðan sigur á sterku liði Frakklands í gær og í dag var komið að öðrum stórleik, gegn feykisterku rússnesku liði. Noregur er ríkjandi Heims- og Evrópumeistari en þær misstu af Ólympíugullinu í Ríó í sumar eftir tap, einmitt gegn Rússum í háspennuleik í undanúrslitum. Þær unnu hins vegar brons eftir sigur á Hollendingum í leiknum um 3.sætið.

Fyrri hálfleikurinn í dag var jafn og spennandi en Norðmenn þó skrefinu framar. Þær leiddu með einu marki í hálfleik, staðan 15-14.

Rússar skoruðu fyrsta mark síðari hálfleiks en norsku stúlkurnar skoruðu þá sex mörk í röð og stungu af. Rússneska liðið náði þó að klóra í bakkann en tókst aldrei að jafna. Þær minnkuðu muninn í 28-26 þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiknum og tveggja marka sigur Noregs því staðreynd.

Veronica Kristiansen skoraði 7 mörk og var markahæst norsku stelpnanna en Antonia Skorobogatchenko og Anna Vyakhireva skoruðu 4 mörk fyrir Rússa.

Evrópumótið í handknattleik kvenna hefst í Svíþjóð þann 4.desember og þar verða Þórir og hans stúlkur í geysisterkum riðli með Svíþjóð, Svartfjallalandi og Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×