Handbolti

Landsleikirnir á móti Tékkum og Úkraínumönnum afdrifaríkir fyrir Aron

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson meiddist á móti Tékkum.
Aron Pálmarsson meiddist á móti Tékkum. Vísir/Ernir
Aron Pálmarsson hefur ekki spilað með ungverska liði sínu Veszprém eftir landsleikjahléið í byrjun nóvember.

Ástæðan eru nárameiðsli sem hann varð fyrir í leiknum við Tékka en þau ágerðust síðan út í Úkraínu.

Ísland vann Tékka í Laugardalshöllinni en og tapaði svo fyrir Úkraínumönnum þremur dögum síðar. Aron skoraði tíu mörk í leikjunum tveimur þar af sex mörk í Úkraínu. Aron þurftu reyndar 14 skot til að skora mörkin sín sex í Úkraínuleiknum.

„Það er bólga í sin í náranum sem er að angra mig. Ég varð fyrir þessum meiðslum í leiknum á móti Tékkunum í Höllinni og þau ágerðust síðan eftir leikinn við Úkraínu,“ sagði Aron í viðtali við Guðmund Hilmarsson í Morgunblaðinu

Þrátt fyrir meiðslin spilaði Aron báða leikina og tók meðal annars ruðning á Tékkana í lokasókn þeirra en þau varnartilþrif innsigluðu íslenskan sigur.

„Þetta horfir nú allt til betri vegar. Ég finn dagamun á mér og stefni á að spila í París um næstu helgi,“ bætti Aron við en framundan er Meistaradeildarslagur á milli Veszprém og París.

Aron segist hafa ákveðið að taka enga áhættu með að byrja of snemma en hann hefur verið í stanslausri meðhöndlun síðan í leiknum á móti Úkraínumönnum sem fór fram 5. nóvember síðastliðinn.

Það kom einnig fram í frétt Guðmundar Hilmarssonar að Aron ætli ekki að taka ákvörðun um framtíð sína fyrr en í sumar. Hann er með samning hjá Veszprém út næstu leiktíð en vitað er af miklum áhuga frá stórliðum Kiel, París SG og Barcelona.

Það gæti því verið mikilvægt fyrir Aron að sýna sig og sanna í leiknum í París um helgina hafi hann áhuga á að spila með franska liðinu í framtíðinni.

Aron Pálmarsson í leik með ungverska liðinu Veszprém.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×