Handbolti

Dagur: Kveðjustundin verður erfið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Dagur Sigurðsson sér fram á erfiða kveðjustund þegar hann hættir með þýska landsliðið í handbolta eftir HM í Frakklandi.

Þetta segir hann við þýska fjölmiðla en í síðustu viku var staðfest að hann muni hætta með liðið og taka við landsliði Japans.

Sjá einnig: Dagur semur til Japans til ársins 2024

„Það var auðvelt að taka þessa ákvörðun því þetta var persónuleg ákvörðun,“ sagði Dagur við þýsku fréttaveituna DPA.

„En það er sorglegt fyrir mig að gefa frá mér þetta lið á þessum tímapunkti. En þetta er skref sem ég þurfti að taka,“ sagði hann enn fremur.

Dagur samdi við handknattleikssamband Japans til 2024 en segir það af og frá að hann hafi verið lokkaður í burtu með gylliboðum.

„Ég hefði getað þénað meira annars staðar en í Japan. En það hentaði mér best að taka tilboðinu frá Japan.“

Sjá einnig: Sumum finnst þetta eflaust vera skrítin ákvörðun

Dagur mun flytja til Íslands með fjölskyldu sinni á næsta ári og ferðast svo til Japans eftir þörfum. En fyrst ætlar hann sér að kveðja þýska landsliðið á viðeigandi hátt.

„Ég væri mjög ánægður ef okkur tækist að ná betri árangri á þessu móti en á síðasta HM [í Katar 2015],“ sagði Dagur en Þýskaland endaði í sjöunda sæti í Katar en Dagur var þá að stýra Þýskalandi í fyrsta sinn á stórmóti.


Tengdar fréttir

Dagur semur við Japan til ársins 2024

"Þetta er búið að eiga sér langan aðdraganda. Það eru svona tíu ár síðan ég byrjaði að vera í stöðugu sambandi við japanska sambandið,“ segir Dagur Sigurðsson handboltaþjálfari við Vísi en í kvöld verður tilkynnt að hann hafi samið við japanska handknattleikssambandið.

Sumum finnst þetta eflaust vera skrítin ákvörðun

Dagur Sigurðsson er á leið í annað Japansævintýri á nýju ári, þrettán árum eftir að hann yfirgaf landið á sínum tíma. Hann yfirgefur eitt besta landslið heims og afþakkaði tilboð frá ríkasta félagi heims til þess að stýra uppbyggingu handboltans í Japan næstu árin. Samningur Dags nær fram yfir næstu tvenna Ólympíuleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×