Handbolti

Anja Andersen vill nú verða landsliðsþjálfari Dana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anja Andersen er litríkur karakter.
Anja Andersen er litríkur karakter. Vísir/Getty
Besta handboltakona Dana frá upphafi er um leið einn litríkasta íþróttamaður Dana í sögunni. Það hefur aftur á móti lítið heyrst frá henni síðustu árin en nú vill Anja Andersen komast í alvöruna á nýjan leik.

Anja Andersen var kosin besta handboltakona heims árið 1997 og eftir flottan feril þá reyndi hún fyrir sér í þjálfun hjá bæði Slagelse og FCK Handball. Hún yfirgaf Danmörku 2010 og gerðist þjálfari Oltchim Vâlcea í Rúmeníu en hætti eftir aðeins tvo mánuði.

Síðan þá hefur Andersen haldið sig frá sviðsljósinu en nú vil hin 48 ára handboltagoðsögn fá nýtt tækifæri til að þjálfa.  Hún segist hafa tekið til hjá sér og sé nú allt önnur persóna.

Anja Andersen ræðir framtíð og fortíð í viðtali við Berlingske Tidende og þar segist hún meðal annars hafa verið að skoða hugmyndafræði þjálfara eins og Svíans Bengt Johansson og Bandaríkjamannsins Phil Jackson.

Phil Jackson vann ellefu NBA-titla sem þjálfari og undir stjórn Bengt Johansson var sænska handboltalandsliðið eitt það allra besta í heimi í næstum því heilan áratug.  

Stærsta fréttin er þó að Anja Andersen vill fá tækifæri til að þjálfa danska landsliðið.

„Ég held að það væri áhugavert að þjálfa danska landsliðið. Það væri mjög spennandi að taka að sér það verkefni,“ sagði Anja Andersen.

Anja Andersen lék á sínum 133 landsleiki fyrir Dani og skoraði í þeim 726 mörk. Hún varð heimsmeistari (1997). Ólympíumeistari (1996) og Evrópumeistari (1994 og 1996) með danska landsliðinu á sínum tíma auk þess að vinna Meistaradeildina þrisvar sem leikmaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×