Viðskipti erlent

Eftirlitsstofnun ESA fær nýjan forseta

Atli Ísleifsson skrifar
Bente Angell-Hansen.
Bente Angell-Hansen. Regjeringen.no
Hin norska Bente Angell-Hansen mun í ársbyrjun taka við embætti forseta ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Frá þessu greinir norska NRK.

Angell-Hansen hefur að undanförnu starfað sem sendiherra Noregs í Austurríki.

Hún tekur við embætti forseta ESA af samlanda sínum, Sven Erik Svedman, sem tók við embættinu í september 2015.

ESA hefur eftirlit með framkvæmd reglna evrópska efnahagssvæðisins á Íslandi, Liechtenstein og Noregi, og gerir ríkjunum þannig kleift að taka þátt á innri markaði Evrópu.

Uppfært 13:15:

Í tilkynningu frá ESA segir að ný stjórn hafi verið skipuð með þau Högni S. Kristjánsson, Frank J. Büchel og Bente Angell-Hansen innanborðs.

„Högni er tilnefndur af hálfu Íslands til fjögurra ára. Hann kemur til ESA frá Genf, þar sem hann hefur starfað sem fastafulltrúi Íslands gagnvart skrifstofum Sameinuðu þjóðanna, EFTA og Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Áður var hann skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Hann tekur við af Helgu Jónsdóttur sem hefur verið stjórnarmaður hjá ESA frá upphafi árs 2014,“ segir í tilkynningunni.

Bente Angell-Hansen hefur verið skipuð sem stjórnarmaður til ársins 2021, og sem forseti ESA til tveggja ára frá áramótum. Frank J. Büchel, sem hefur átt sæti í stjórn ESA frá ársbyrjun 2014 var endurskipaður til til fjögurra ára samkvæmt tilnefningu Liechtenstein.

ESA er stýrt af þriggja mann stjórn (College). Þótt stjórnarmennirnir séu tilnefndir af aðildarríkjunum eru í EES samningum skýr ákvæði um sjálfstæði þeirra í störfum og að þeir séu óháðir pólítískri leiðsögn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×