Viðskipti erlent

Uber leyndi meiriháttar gagnastuldi

Kjartan Kjartansson skrifar
Stjórnendur Uber vissu af stuldinum í meira en ár áður en þeir gengust við honum.
Stjórnendur Uber vissu af stuldinum í meira en ár áður en þeir gengust við honum. Vísir/AFP
Hakkarar brutust inn í tölvukerfi leigubílaþjónustunnar Uber og komust yfir upplýsingum um 57 milljónir notenda og bílstjóra hennar. Fyrirtækið leyndi lekanum hins vegar og greiddi hökkurunum hundrað þúsund dollara til þess að eyða gögnunum.

Á meðal upplýsinganna sem hakkararnir komust yfir voru nöfn, tölvupóstföng og farsímanúmer notenda og bílstjóra Uber, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Bloomberg-fréttastofan greindi fyrst frá gagnastuldinum og að Travis Kalanick, fyrrverandi forstjóri Uber, hafi vitað af honum fyrir meira en ári.

Bílstjórum fyrirtækisins hefur verið boðin ókeypis þjónusta til þess að verja þá fyrir mögulegum fjársvikum eftir gagnastuldinn. Viðskiptavinum Uber stendur hún ekki til boða.

„Þó að við höfum ekki séð vísbendingar um fjársvik eða misnotkun sem tengist uppákomunni þá fylgjumst við með reikningunum sem urðu fyrir stuldinum og höfum merkt þá fyrir frekari vernd gegn svikum,“ segir Dara Khosrowshahi, forstjóri Uber.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×