Golf

Ástæðan fyrir því að Rihanna er að setja á sig kórónu á Twitter-síðu Ólafíu Þórunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. vísir/Ernir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir gafst ekki upp þrátt fyrir erfiða byrjun á fyrsta LPGA-móti sínu á árinu 2018. Íþróttamaður ársins 2017 sýndi úr hverju hún er gerð.

Eftir sex skolla á fyrsta hring og aðra fimm skolla á fyrstu ellefu holunum á öðrum hring þá leit allt út fyrir að íslenski kylfingurinn myndi festast í niðurskurðinum og fara að huga að heimferð.

Það hefur verið gaman að fylgjast með fyrstu sporum Ólafíu meðal þeirra bestu í heimi því hún hefur oftast siglt ótrauð í gegnum mesta ólgusjóinn.

Ólafía Þórunn sýndi þannig enn á ný mikinn andlegan styrk í þessari erfiðu stöðu sem hún var í eftir að öðrum hringnum hafði tvisvar verið frestað og hún var að fara út eldsnemma á sunnudagsmorgni að spila holur sem hún átti að spila á föstudaginn.

Ólafía var tilbúin í það krefjandi verkefni og hún byrjaði á því að ná fjórum fuglum á síðustu sex holunum á öðrum hring en með því náði hún niðurskurðinum með glans.

Ólafía fylgdi því eftir og fékk fimm fugla á þriðja hringnum sem skilaði henni 26. sæti á mótinu sem er einn besti árangur hennar á sterkustu mótaröð í heimi.

Ólafía Þórunn hafði þar með náð tíu fuglum á 25 holum og hækkað sig úr +9 í -1 sem er magnaður árangur.

Það var því ekkert skrýtið að Ólafía hafi fagnað árangrinum á Twitter eins og sjá má hér fyrir neðan. Drottning íslenska golfsins styrkti enn stöðu sína í hásætinu og það var við hæfi að kalla á drottningu tísku- og tónlistarheimsins til að fagna því. Þetta var sannkölluð draumaframmistaða en enginn draumur.






Tengdar fréttir

Tveir fuglar eftir níu holur á lokahring Ólafíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir byrjar lokahringinn vel á Pure Silk mótinu í golfi sem fram fer á Bahamaeyjum. Hún fór fyrstu níu holurnar á tveimur höggum undir pari.

Níu fugla dagur skilaði Ólafíu meira en einni milljón

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir endaði i 26. sæti á Pure Silk mótinu á Bahamaeyjum sem lauk í gær. Það er óhætt að segja að íslenski kylfingurinn hafi spilað frábærlega á lokadeginum sem er einn sá sögulegasti hjá henni á LPGA-mótaröðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×