Viðskipti erlent

Krefjast þess að ESB rannsaki kaup Apple

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
VÍSIR/GETTY
Ísland var eitt sjö ríkja sem kröfðust þess að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tæki kaup tæknirisans Apple á breska smáforritinu Shazam til sérstakrar skoðunar. Krafan var gerð á grundvelli evrópskrar samrunareglugerðar.

Framkvæmdastjórnin segist í tilkynningu hafa ákveðnar áhyggjur af því að kaupin geti haft skaðleg áhrif á samkeppni. Því hafi hún ákveðið, að kröfu nokkurra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu, að rannsaka þau sérstaklega.

Apple tilkynnti um kaupin í desember síðastliðnum. Er kaupverðið um 400 milljónir dala sem jafngildir ríflega 40 milljörðum króna. Forrit Shazam gerir fólki kleift að nota farsím­ann til að bera kennsl á tónlist með því að greina stutt hljóðbrot.

Austurrísk stjórnvöld voru þau fyrstu til að óska eftir því að evrópsk samkeppnisyfirvöld rannsökuðu kaupin en í kjölfarið bættust sex ríki í þann hóp, þar á meðal Ísland.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×