Golf

Woods með besta hring endurkomunnar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það er allt á uppleið hjá Tiger.
Það er allt á uppleið hjá Tiger. vísir/getty
Tiger Woods náði sínu lægsta skori síðan hann snéri aftur á golfvöllinn á þriðja hring Honda Classic mótsins á PGA mótaröðinni í golfi í nótt.

Hann fór hringinn á 69 höggum, sem er einu höggi undir pari vallarins. Samtals eftir hringina þrjá er hann á pari og er í 11. - 15. sæti fyrir loka hringinn.

Landi hans frá Bandaríkjunum, Luke List leiðir mótið á sjö höggum undir pari og Justin Thomas og Webb Simpson fylgja fast á hæla hans á sex höggum undir pari.

Lokaholurnar voru dramatískar hjá Woods. Hann fékk fugl á 13. holu og var kominn tveimur höggum undir parið. Hann tapaði svo höggi á 15. holunni og fékk annan skolla á 17. holu. Hann bjargaði sér svo aftur undir parið með fugli á 18. holu.

„Ég á enn möguleika. Þetta var líklegast eins vel og ég hefði getað spilað í dag,“ sagði Woods eftir hringinn í nótt





Rory McIlroy er ekki í jafn góðum málum og Woods á mótinu. Hann er í 63.-65. sæti eftir að hafa farið þriðja hringinn á þremur höggum yfir pari og er því samtals á sjö höggum yfir pari.

Hringurinn hefði þó verið mun verri þar sem hann byrjaði hræðilega. Á fjórðu og fimmtu holu fékk hann skolla og fylgdi því eftir með skramba á sjöttu og tveimur skollum á 7. og 8. holu og var hann því kominn sex höggum yfir parið.

Þá komu tveir fuglar í röð áður en hann sló fyrir öðrum skolla á 11. holu. Tveir fuglar á síðustu sex holunum komu skorinu niður í þrjú högg yfir pari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×