Golf

Tiger: Spilaði miklu betur en skorið segir til um

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Tiger á ferðinni í gær.
Tiger á ferðinni í gær. vísir/getty
Tiger Woods sýndi oft á tíðum mögnuð tilþrif á Players-meistaramótinu um helgina en möguleikar hans á að enda með efstu mönnum sukku í vatninu á hinni frægu 17. holu Sawgrass-vallarins.

Hann endaði jafn öðrum í ellefta sæti en var um tíma í öðru sætu á mótinu. Hringina fjóra spilaði hann á 72, 71, 65 og 69 höggum.

Þó svo margt hafi glatast í vatninu á 17. holunni þá var Tiger mjög jákvæður eftir mótið enda sýndi hann lengstum að hann er að koma til baka með stæl.

„Ég spilaði rosalega vel í dag. Ég var að hitta boltann alveg ofboðslega vel. Ég var með fulla stjórn á því sem ég var að gera frá upphafshöggi fram á flötina. Mér leið vel í öllu sem ég var að gera. Ég spilaði miklu betur en skorið segir til um,“ sagði Tiger brattur en það var oft á tíðum unun að fylgjast með honum og aðdáendur hans glöddust yfir þessari frammistöðu.

Tiger var í 92. sæti heimslistans fyrir mótið en mun hoppa í sæti númer 80. Hann hefði farið mun hærra ef hann hefði ekki farið í vatnið. Tiger varð einnig af háum fjárhæðum og mikilvægum stigum í keppni um FedEx-bikarinn.


Tengdar fréttir

Simpson vann örugglega á Players

Bandaríkjamaðurinn Webb Simpson sigraði Players mótið í golfi sem kláraðist í nótt. Frábær spilamennska á öðrum hring lagði grunninn að sigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×