Sport

Anníe Mist og Katrín Tanja græddu á því að vera hlið við hlið í maraþonróðrinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir. Mynd/Instagram/thedavecastro
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir eru ekki bara að keppast um að verða fyrsta konan til að vinna heimsleikana þrisvar sinnum því þær eru einnig góðar vinkonur og hafa verið það lengi.

Dave Castro, hæstráðandi heimsleikanna í CrossFit, vakti athygli á því á Instagram-síðu sinni að þær Anníe og Katrín Tanja hafi verið hlið við hlið á meðan þær komust í gegnum rúmlega þriggja klukkutíma róður í lokagrein mikvikudagsins.

„Ég reyndi að tala við Katrínu en hún svaraði ekki,“ sagði Anníe þegar hún ræddi við Dave Castro eftir maraþonróðurinn. „Ég sagði: Við erum að standa okkur svo vel Katrín. Segðu mér að við séum að standa okkur vel,“ sagði Anníe Mist.

„Sagðir þú það? Ég heyrði ekki í þér,“ sagði Katrín Tanja en bætti svo við: „Það var langbest að hafa hana við hliðina á mér. Það færði mér ró og hughreystingu,“ sagði Katrín Tanja.

Báðar enduðu þær meðal fimm efstu. Anníe Mist varð þriðja og Katrín Tanja endaði í fimmta sæti.

Hér fyrir neðan má sjá færsluna á Instagram-síðu Dave Castro.









Anníe Mist og Katrín Tanja fengu frídag í gær en í dag er komið að næstu tveimur greinum í keppninni. Anníe Mist er þriðja í heildarkeppninni en Katrín Tanja er í sjötta sæti.

Katrín Tanja má ekki dragast mikið meira aftur úr ætli hún að vera með í baráttunni um fyrsta sætið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×