Golf

Pútterinn varð Tiger að falli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Tiger átti ekki sérstakan dag í dag
Tiger átti ekki sérstakan dag í dag Vísir/Getty
Tiger Woods náði sér ekki á strik í dag og missti niður forystu sína á BMW meistaramótinu sem er næst síðasta mót FedEx-úrslitakeppninnar á PGA mótaröðinni.

Eftir fyrsta keppnisdag voru Woods og Rory McIlroy saman í forystu á átta höggum undir pari. Woods átti frábæran fyrsta dag en náði ekki að fylgja því eftir í dag.

Hann fékk þrjá fugla og þrjá skolla og lék því á parinu og er enn á átta höggum undir pari í mótinu.









Norður-Íranum gekk lítið betur, hann fór hringinn í dag á einu höggi undir pari. Í gær fór McIlroy hamförum og fékk meðal annars fimm fugla í röð, en hann hafði aðeins hægar um sig í dag og fékk aðeins þrjá fugla á hringnum.

Bandaríkjamaðurinn Xander Scauffele er kominn í forystu á mótinu eftir að hafa spilað á sex höggum undir pari í dag. Hann er samtals á 13 höggum undir pari, tveimur höggum á undan Englendingnum Justin Rose sem er í öðru sæti.

Sigurvegari síðustu tveggja móta í úrslitakeppninni, Bryson DeChambeau, er jafn í 38. sæti á þremur höggum undir pari.

Hann ætti þrátt fyrir það að vera öruggur áfram á síðasta mót ársins, úrslitamótið sjálft. Þangað komast þrjátíu efstu kylfingarnir á FedEx stigalistanum að þessu móti loknu.

Bein útsending frá þriðja hring mótsins hefst á Golfstöðinni klukkan 16:00 á morgun.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×