Handbolti

Guðjón Valur með tvöþúsund mörk í bestu deild í heimi og fær sæti í fámennum hópi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar einu af 2010 mörkum sínum í þýsku deildinni.
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar einu af 2010 mörkum sínum í þýsku deildinni. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsfyrirliðinn náði sögulegu takmarki í þýsku bundesligunni í handbolta á dögunum.

Íslenski handboltamaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson er nú kominn í hóp fárra handboltamanna sem hafa skorað yfir tvö þúsund mörk í sterkustu deild í heimi.

Guðjón Valur er að spila sitt fimmtánda tímabil í deildinni en hann hefur nú skorað 2010 mörk í 439 leikjum í þýsku bundesligunni í handbolta.

Guðjón Valur hefur skorað 48 mörk á þessu tímabili en hann þurfti 38 mörk til að rjúfa tvö þúsund marka múrinn.

Fyrir þetta tímabil höfðu aðeins sjö leikmenn náð því að skora tvö þúsund mörk í þýsku deildinni en á þessari leiktíð hafa bæði Guðjón Valur og hinn íslensk ættaði Dani Hans Lindberg bæst í hópinn.

Hans Lindberg hefur leikið í deildinni samfellt frá 2007 en hann er nú kominn með 2007 mörk í 327 leik. Lindberg hefur skorað 50 mörk í 9 leikjum með Füchse Berlin á þessu tímabili.

Guðjón Valur kom fyrst inn í þýsku bundesliguna árið 2001 þegar hann samdi við TUSEM Essen. Hann hefur síðan spilað með  VfL Gummersbach (2005-2008), Rhein-Neckar Löwen (2008-2011, 2016-) og THW Kiel (2012-2014).

Guðjón Valur skoraði 72 mörk í 34 leikjum á sínu fyrsta tímabili í þýsku deildinni, 2001-02, en hækkaði meðalskor sitt upp í 3,8 mörk tímabilið eftir (123 mörk í 32 leikjum). Eftir það hefur hann átt frábæran feril í deildinni en auk þess reynt fyrir sér í Danmörk og á Spáni.

Guðjón hefur þrisvar sinnum náð að skora yfir tvö hundruð mörk á tímabili en mest skoraði hann 263 mörk fyrir Gummersbach tímabilið 2005-06 og varð þá markakóngur þýsku deildarinnar.

Suður-Kóreumaðurinn Yoon Kyung-shin er markahæsti leikmaður allra tíma í þýsku deildinni en hann skoraði 2905 mörk í 406 leikjum frá 1996 til 2008. Daninn Lars Christiansen er í öðru sæti með 2875 mörk og Jochen Fraatz, sem átti metið lengi, er síðan í þriðja sætinu með 2683 mörk.

Aðrir sem hafa skorað yfir tvö þúsund mörk eru Martin Schwalb, Christian Schwarzer, Holger Glandorf og Andreas Dörhöfer en það styttist í að Austurríkismaðurinn Robert Weber bætist í hópinn. Volker Zerbe (1977 mörk) og Uwe Gensheimer (1961 mark) vantaði ekki mikið upp á.

Alexander Petersson er næstmarkahæsti íslenski leikmaðurinn í þýsku bundesligunni en hann hefur skorað 1568 mörk í 418 leikjum með HSG Düsseldorf, Großwallstadt, Flensburg-Handewitt, Füchse Berlin og Rhein-Neckar Löwen.

Vísir/Getty
Flest mörk frá upphafi í þýsku bundesligunni:

1. Yoon Kyung-shin     2905 mörk

2. Lars Christiansen     2875 mörk

3. Jochen Fraatz     2683 mörk

4. Martin Schwalb     2272 mörk

5. Holger Glandorf     2209 mörk

6. Christian Schwarzer     2208 mörk

7. Guðjón Valur Sigurðsson 2010 mörk

8. Hans Lindberg 2007 mörk

9. Andreas Dörhöfer     2003 mörk

10. Robert Weber 1986 mörk

11. Volker Zerbe     1977 mörk

12. Uwe Gensheimer     1961 mörk




Fleiri fréttir

Sjá meira


×