Handbolti

Stórsigur í fyrsta leik Íslands

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arna Sif Pálsdóttir.
Arna Sif Pálsdóttir. Vísir/Ernir
Íslenska kvennalandsliðið vann öruggan þrettán marka sigur á Tyrkjum í fyrsta leik sínum í forkepphi HM í Japan 2019.

Íslenska liðið byrjaði leikinn mjög vel og var með yfirhöndina frá upphafi. Fyrstu tuttugu mínútur fyrri hálfleiks voru mjög góðar og komst liðið mest í fimm marka forystu. Undir lok fyrri hálfleiks náðu þær tyrknesku aðeins að vinna sig inn í leikinn en staðan í hálfleik var þó 18-14 fyrir Ísland.

Síðari hálfleikurinn var stórkostlegur hjá íslensku stelpunum. Á fimm mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks ákvað Guðný Jenný Ásmundsdóttir að skella í lás í íslenska markinu, hún varði í fimm sóknum í röð og á sama tíma skoraði Ísland fimm mörk hinu megin á vellinum og munurinn orðinn tíu mörk.

Eftir það var sigurinn orðinn nokkuð öruggur hjá Íslandi þrátt fyrir nokkrar mislukkaðar sóknir í röð og spurningin aðeins hversu stór sigurinn yrði. Þegar uppi var staðið urðu lokatölur 36-23 og íslenska liðið byrjar þessa keppni af gríðarlegum krafti.

Markahæstar í liði Íslands voru Þórey Rósa Stefánsdóttir og Arna Sif Pálsdóttir með átta mörk hvor. Thea Imani Sturludóttir kom næst með 5 og Eva Björk Davíðsdóttir gerði fjögur.

Guðný Jenný varði 16 bolta í markinu, þar af tvö vítaskot. Hún er því með um 50 prósenta markvörslu í leiknum.

Stórsigurinn dugir þó aðeins í annað sæti riðilsins því fyrr í dag vann Makedónía nítján marka sigur á Aserbaísjan og er því fyrir ofan Ísland á markatölu.

Ísland mætir Makedóníu á morgun í leik sem gæti endað sem úrslitaleikur um hvort liðið fer upp úr riðlinum og í umspil um sæti á HM. Lokaleikur Íslands er svo á sunnudag gegn Aserum.

Leikmannahópur Íslands í leiknum í dag:

Markmenn:

Hafdís Renötudóttir, Boden  (Treyjuúmer 31)

Guðný Jenny Ásmundsdóttir, ÍBV  (Treyjuúmer 16)

Vinstra horn:

Sigríður Hauksdóttir, HK  (Treyjuúmer 29)

Steinunn Hansdóttir, Horsens HK (Treyjuúmer 2)

Vinstri skytta:

Andrea Jakobsen, Kristianstad (Treyjuúmer 3)

Helena Örvarsdóttir, Byåsen (Treyjuúmer 13)

Ragnheiður Júlíusdóttir, Fram  (Treyjuúmer 14)

Miðjumenn:

Ester Óskarsdóttir, ÍBV  (Treyjuúmer 20)

Eva Björk Davíðsdóttir, Ajax  (Treyjuúmer 15)

Martha Hermannsdóttir, KA/Þór  (Treyjuúmer 8)

Hægri Skytta:

Díana Dögg Magnúsdóttir, Valur  (Treyjuúmer 27)

Thea Imani Sturludóttir, Volda  (Treyjuúmer 25)

Hægra horn:

Þórey Rósa Stefánsdóttir, Fram  (Treyjuúmer 4)

Línumenn:

Arna Sif Pálsdóttir, ÍBV  (Treyjuúmer 9)

Perla Ruth Albertsdóttir, Selfoss (Treyjuúmer 32)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×