Handbolti

Stórleikur Bjarka sló Alexander og Guðjón út úr bikarnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bjarki var frábær í kvöld.
Bjarki var frábær í kvöld. vísir/getty
Füchse Berlín er komið í undanúrslit þýska bikarsins eftir sigur á Rhein-Neckar Löwen í framlengdum Íslendingaslag í átta liða úrslitunum, 37-35.

Ljónin voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og voru þremur mörkum yfir að honum loknum, 17-14, en leikið var í Berlín.

Refirnir komu sterkari inn í síðari hálfleikinn og náðu að minnka muninn í eitt mark. Það var svo á lokasekúndunum sem Daninn Hans Lindberg jafnaði metin í 30-30 og tryggði Füchse framlengingu.

Füchse náði tveggja marka forystu í upphafi síðari hálfleiks framlengarinnar og það var bil sem Löwen náði aldrei að brúa. Lokatölur 37-35.

Bjarki Már Elísson fór á kostum í liði Füchse. Hann varð markahæsti leikmaður þeirra með sjö mörk, ásamt Hans Lindberg sem skoraði sex af sjö mörkum sínum af vítalínunni.

Alexander Petersson skoraði tvö mörk en var vísað í sturtu eftir þriðju brottvísunina í síðari hálfleik. Guðjón Valur Sigurðsson var hvíldur.

Kiel hafði þegar tryggt sér sæti í undanúrslitunum en einn leikur í 8-liða úrslitunum fer fram síðar í kvöld og sá síðasti annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×