Sport

Hrósar Katrínu Tönju: Fengu að sjá meistarann sem þau komu til að sjá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Mynd/Instagram/fittestincapetown
Katrín Tanja Davíðsdóttir stóðst pressuna og tryggði sér glæsilegan sigur á CrossFit mótinu „Fittest in Cape Town“ um síðustu helgi. Sigurinn færði henni sæti á heimsleikunum næsta haust.

Brian Friend hefur gert upp mótið á heimasíðu mótsins og hann fer þar vel yfir keppnina í karla- og kvennaflokki. Katrín Tanja er að sjálfsögðu í aðalhlutverki í umfjöllun hans um kvennaflokkinn.

Brian segir að það hafi verið skynsamlegt hjá Katrínu að koma á þetta mót í Höfðaborg og tryggja sig þar inn á heimsleikana á móti þar sem engin af hennar helstu keppinautum tóku þátt.







„Þetta var útreiknað hjá Katrínu og hennar liði. Nú fær hún líka sex mánuði til að undirbúa sig fyrir heimsleikana sem hún getur fyrst allra unnið í þriðja sinn,“ skrifaði Brian Friend á fittestincapetown.com.

Brian segir að Katrín hafi verið í óvenjulegri stöðu eftir tvær greinar enda aðeins í fimmta sæti af fimmtán keppendum. „Katrín var líkari sjálfri sér á degi tvö þar sem hún kláraði bæði sjóinn og hæðina með glæsibrag. Katrín vissi samt vel af þeim Miu Akerlund og Alessandra Pichelli sem voru líka komnar í gang.“

Katrín Tanja var aðeins með sex stiga forystu fyrir síðasta daginn og það leit út fyrir mjög spennandi lokabaráttu.

„Á lokadeginum fengu áhorfendur mótsins að sjá meistarann sem þau komu til að sjá. Katrín tók öll völd frá fyrstu sekúndu í fyrstu grein dagsins og sendi strax sterk skilaboð til keppinauta sinna. Ekki bara þeim sem voru að keppa við hana á þessu móti því hún kláraði lokadaginn frábærlega með því að vinna tvær greinar og enda í fimmta sæti í lokagreininni,“ skrifaði Brian og bætti við.

„Með þessum sigri þá sendi Katrín skilaboð til allra kvennanna í úrvalshópnum í CrossFit heiminum. Þau eru: Ég er hérna enn þá, ég er enn að berjast og ég verð tilbúin,“ skrifaði Brian en þá má finna allan pistil hans hér.








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×