Handbolti

Formaður dómaranefndar HSÍ: Rauða spjaldið hárrétt ákvörðun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Formaður dómaranefndar HSÍ segir að dómarar leiks FH og Vals í Olís-deild karla hafi tekið rétta ákvörðun þegar þeir gáfu Daníel Frey Andréssyni, markverði Valsmanna, rauða spjaldið. Atvikið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Valsmenn voru í sókn þegar rúmar sjö mínútur voru til leiksloka en töpuðu boltanum, Daníel fór út að miðlínu, náði boltanum en lenti um leið í samstuði við FH-inginn Jakob Martin Ásgeirsson.

Eftir að hafa stuðst við myndbandsupptöku sýndu dómararnir Daníel rauða spjaldið. Reynir Stefánsson, formaður dómaranefndar HSÍ, segir að ákvörðun þeirra Bjarka Bóassonar og Gunnars Óla Gústafssonar hafi verið rétt.

„Þetta var hárréttur dómur. Þetta er eins skýrt og þetta verður,“ sagði Reynir í samtali við Vísi og vísaði til reglu 8.5 í lögunum.

Þar segir að markvörður sé ábyrgur fyrir að því að tryggja að ekki skapist aðstæður sem geta verið hættulegar heilsu mótherja og að markvörður skuli vera útilokaður ef hann a) nær boltanum, en veldur árekstri við mótherjann með hreyfingum sínum; b) nær ekki boltanum eða stjórn á honum en veldur árekstri við mótherja.

Jafnframt segir að ef dómarar eru sannfærðir um að mótherjinn hefði náð boltanum ef markvörðurinn hefði ekki brotið á honum við aðra hvora þessara aðstæðna, eigi að dæma vítakast.

Regla 8.5.
Reynir segir að markvörðurinn sé í raun réttlaus um leið og hann snertir mótherja utan síns vítateigs. Ef markvörðurinn nái hins vegar boltanum án þess að snerta mótherja eigi leikurinn að halda áfram.

Valur var tveimur mörkum yfir, 23-25, þegar Daníel fékk að líta rauða spjaldið. Sami munur var á liðunum þegar uppi var staðið, 26-28. Valur er í 3. sæti Olís-deildarinnar en FH í því fjórða.

Daníel er uppalinn FH-ingur en gekk í raðir Vals fyrir tímabilið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×