Fótbolti

Leyni­þjónustan með í för, bauluðu á fórnar­lömb flóða á Spáni og fengu á baukinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stuðningsmenn Maccabi söfnuðust saman í miðbæ Amsterdam, kveiktu á blysum og voru til almennra óláta.
Stuðningsmenn Maccabi söfnuðust saman í miðbæ Amsterdam, kveiktu á blysum og voru til almennra óláta. Mouneb Taim/Getty Images

Stuðningsmenn ísraelska liðsins Maccabi Tel Aviv fóru sneypuför til Amsterdam á dögunum þar sem liðið tapaði 5-0 fyrir Kristian Nökkva Hlynssyni og félögum í Ajax.

Ásamt því að blóta Aröbum, vera til óláta í miðbæ borgarinnar þá baulaði hópurinn þegar einnar mínútu þögn var fyrir leik liðsins gegn Ajax vegna flóðanna á Spáni og þá þurfti ríkisstjórn Ísrael að koma þeim til bjargar þó Mossad, leyniþjónusta Ísrael, væri með í för.

Mikið hefur verið rætt um veru stuðningsmanna Maccabi Tel Aviv í Amsterdam. Á samfélagsmiðlum má sjá fjölda myndbanda af því sem gekk á fyrir og eftir leikinn. Þar má sjá nokkra úr hópi stuðningsmannanna rífa niður fána Palestínu sem hékk í glugga á íbúðarhúsnæði. Daily Mail greindi frá því að hópurinn hafi ráðist á leigubílstjóra í borginni.

Það vakti mikla athygli þegar ísraelski miðillinn Jerúsalem Post birti frétt þess efnis á dögunum að Mossad myndi fylgja stuðningsmönnunum til Amsterdam. Það virðist ekki hafa gefið góða raun þar sem stjórnvöld í Ísrael þurftu að senda tvær flugvélar til Amsterdam svo hópurinn kæmist örugglega heim í tæka tíð. Írski miðillinn RTÉ News greinir svo frá því að sönnungargögnin bendi til þess að stuðningsmenn Maccabi hafi ögrað íbúum Amsterdam.

Stuðningsmönnunum var síðan fagnað eins og hetjum þegar þeir lentu ásamt leyniþjónustumönnum Mossad heima í Ísrael.

Hakim Ziyech, landsliðsmaður Marokkó og núverandi leikmaður Galatasaray í Tyrklandi, hefur tjáð sig um málið á Instagram-síðu sinni. Ziyech spilaði á sínum tíma með Ajax og fagnaði hann því að fólkið í hans fyrrum heimaborg hafi staðið í hárinu á boltabullunum frá Tel Aviv. Endaði hann færslu sína á „og enn Frjáls Palestína.“

Framherjinn Eran Zahavi, leikmaður Maccabi, kom inn af bekknum í leiknum í liðinni viku og deildi hann færslu Ziyech með orðunum „Heimski stuðningsmaður ógnar,“ ásamt því að óska að UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, myndi refsa Ziyech.

Í myndbandi af þessu atviki má heyra stuðningsmennina blóta Aröbum og óska þeim dauða.Mouneb Taim/Getty Images

Hvað leikinn í Amsterdam varðar þá tapaði Maccabi 5-0 og er liðið enn án stiga eftir fjóra leiki í Evrópudeildinni. Markatala liðsins er 2-11 eða níu mörk í mínus. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×