Innlent

Reif upp gjallarhorn og mótmælti veru Katrínar og Jóns Atla á ráðstefnu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Konan reif upp gjallarhorn og mótmælti.
Konan reif upp gjallarhorn og mótmælti. Mynd/Skjáskot
Mótmælandi greip upp gjallarhorn og mótmælti veru Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Jóns Atla Benediktssonar, rektor Háskóla Íslands á setningarathöfn ráðstefnu sem haldin er þessa dagana í Reykjavík.

Ráðstefnan ber yfirskriftina„Border Regimes, Territorial Discourses and Feminist Politics“ og er haldin á vegum RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum í samstarfi við Alþjóðlegan Jafnréttisskóla og rannsóknasetrið EDDU við Háskóla Íslands.

Ráðstefnan var sett í morgun í Háskólabíói og héldu Katrín og Jón Atli ávörp. Við upphaf athafnarinnar steig einn ráðstefnugestur úr sæti sínu, tók upp gjallarhorn og ávarpaði salinn.

„Það er fáranlegt og óásættanlegt að á feminískri ráðstefnu eins og þessari sem á að vera gagnrýnin á valdakerfi sé verið að samþykkja og fagna þeim sem taka þátt í kerfisbundnum ofsóknum á hendur minnihlutahópum,“ sagði konan meðal annars en ávarp hennar má sjá hér fyrir neðan.

Beindist gagnrýnni hennar einkum að Jóni Atla og umdeildum samningi háskólans við Útlendingastofnun um tanngreiningar á ungum hælisleitendum svo ákvarða megi aldur þeirra. Þá gagnrýndi hún Katrínu fyrir skort á áhuga á því að binda enda á ofbeldi sem hælisleitendur verða fyrir.

Starfsmenn ráðstefnunnar gerðu heiðarlega tilraun til þess að vísa konunni úr salnum en eftir að hún bað um að fá að tala virtust þeir verða við ósk hennar. Þegar hún hafði lokið máli sínu klappaði salurinn.

„Augnablik, ég vil koma þessum skilaboðum á framfæri, takk fyrir,“ sagði konan áður en hún hvatti ráðstefnugesti til að snúa baki í Katrínu og Jón Atla er þau fluttu ávörp sín. Átti það að vera táknræn aðgerð þar sem þau hefði að mati konunnar sem truflaði ráðstefnuna snúið baki við hælisleitendum.

Katrín svaraði gagnrýni konunnar stuttlega í upphafi ávarps síns.

„Ég ætla ekki að verja hvern króka og kima kerfisins sem sér um að meðhöndla umsóknir hælisleitenda. Ég mun hins vegar ekki samþykkja það að ég sé ábyrg fyrir evrópska lagaramannum um réttindi hælisleitenda,“ sagði Katrín áður en hún fjallaði um hvernig bandalag öfgahægriflokka í Evrópu hafi ráðist gegn innflytjendum og hælisleitendum og gert þá að blórabögglum fyrir það sem hefur farið úrskeiðis við hnattvæðingu undanfarinna ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×