Handbolti

Ari Magnús: Þetta var alveg rétt sem Rúnar var að segja

Smári Jökull Jónsson í TM-höllinni skrifar
Ari Magnús sagði engin vandamál vera á milli síns og Rúnars Sigtryggssonar þjálfara.
Ari Magnús sagði engin vandamál vera á milli síns og Rúnars Sigtryggssonar þjálfara. Vísir/Bára
„Hrikalega gott að ná í tvö stig, loksins að vinna einn leik. Þetta var góður seinni hálfleikur, góð vörn og við héldum bara áfram,“ sagði Ari Magnús Þorgeirsson í samtali við Vísi eftir sigur Stjörnunnar á HK í dag.

Sigurinn var sá fyrsti hjá Stjörnunni í Olís-deildinni á tímabilinu.

HK skoraði aðeins eitt mark á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks og komst Stjarnan þá í 20-14 eftir að staðan í leikhléi var 13-13.

„Við spiluðum góða vörn og lokuðum á allt það sem þeir voru að gera sóknarlega. Svo vorum við að gera ágætlega í sókninni og fengum hraðaupphlaup í kjölfarið,“ bætti Ari Magnús við.

Sveinbjörn Pétursson sneri aftur í mark Stjörnunnar vegna meiðsla Stephen Nielsen og átti frábæran leik.

„Hrikalega gott að fá hann aftur, flottur kallinn.“

Í vikunni fékk Ari Magnús nokkuð harða gagnrýni frá Rúnari Sigtryggssyni þjálfara liðsins þegar sá síðarnefndi mætti í viðtal hjá Stöð 2.

„Maður er að verða 33 ára, ef ég hefði verið 22 ára þá hefði ég kannski brugðist öðruvísi við. Ég var ekkert að taka þessu það alvarlega. Maður þarf að svara inni á vellinum.“

Það gerði Ari heldur betur, hann skoraði 6 mörk og átti sinn besta leik á tímabilinu.

„Ég átti ágætan leik, loksins gat ég eitthvað. Þetta er alveg rétt sem Rúnar var að segja, ég hef ekkert getað,“ bætti Ari við og sagði engin vandamál vera á milli hans og Rúnars.

„Alls ekki, alls ekki.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×