Handbolti

Patrekur: Ekki víst að ég þjálfi meistaraflokkslið næsta vetur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Patrekur ásamt aðstoðarmanni sínum, Claus Hansen, sem tekur við af honum næsta sumar.
Patrekur ásamt aðstoðarmanni sínum, Claus Hansen, sem tekur við af honum næsta sumar. mynd/skjern

Danska handboltaliðið Skjern tilkynnti í dag að Patrekur Jóhannesson myndi láta af þjálfun liðsins næsta sumar. Patrekur tók við liðinu síðasta sumar eftir að hafa gert Selfoss að Íslandsmeisturum.

„Það eru svona þrjár vikur síðan ég tók þessa ákvörðun. Það var gluggi í samningnum sem gerði mér kleift að taka þessa ákvörðun núna. Þetta er búið að vera erfitt þar sem ég er með fjölskylduna heima og ég einn úti,“ segir Patrekur og bætti við að það væri gott að vera búinn að taka þessa ákvörðun og geta nú horft til framtíðar.

„Þetta er samt ekkert búið hérna úti og við ætlum að láta til okkar taka í þessari sterku deild hérna eftir áramót. Aðstoðarmaður minn tekur svo við liðinu og það er fær þjálfari sem heldur áfram á sömu braut.“

Sér ekki eftir neinu

Þjálfarinn segist ekki sjá eftir því að hafa stokkið á þetta tækifæri þó svo það hafi verið stutt ævintýri að þessu sinni.

„Alls ekki. Ég hefði alltaf séð eftir því ef ég hefði ekki tekið slaginn. Síðan ráða aðstæður því að ég hef ákveðið að fara heim,“ segir Patrekur en hefur hann þjálfað í síðasta sinn erlendis?

„Ég vil nú ekki útiloka það en það verður að teljast ólíklegt að ég fari út á næstu árum þó svo maður viti aldrei hvað gerist. Hugurinn stefnir þó ekki aftur út á næstunni.“

Gæti farið í unglingaþjálfun

Patrekur segir alls óvíst hvað taki við er hann kemur heim. Hann sé nýbúinn að taka þessa ákvörðun og hefur ekkert ákveðið.

„Ég verð nú að finna mér einhverja vinnu sama hver hún er. Það er ansi líklegt að ég geri eitthvað tengt handboltanum sama hvort það sé að þjálfa eitthvað lið eða hreinlega demba mér í unglingaþjálfun og láta gott af mér leiða þar. Mér finnst það líka spennandi. Það er því ekkert víst að ég fari að þjálfa meistaraflokkslið næsta vetur. Þetta verður bara allt að koma í ljós.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×