Innlent

Hulda Elsa byrjar sem lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hulda Elsa Björgvinsdóttir hefur verið staðgengill lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Hulda Elsa Björgvinsdóttir hefur verið staðgengill lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Vísir

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og staðgengill Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra, mun gegna stöðu lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu frá og með mánudegi og þar til nýr lögreglustjóri verður skipaður. Þetta herma heimildir fréttastofu.

Tilkynnt var í gær að Sigríður Björk hefði verið skipuð ríkislögreglustjóri. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra valdi Sigríði Björk en fjögur höfðu verið metin hæf af hæfisnefnd, Sigríður Björk þó hæfust.

Reikna má með því að starf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu verði auglýst til umsóknar á næstunni, lögum samkvæmt, en ráðningarferlið getur tekið nokkurn tíma. Til samanburðar tók á fjórða mánuð að skipa nýjan ríkislögreglustjóra í stað Haraldar Johannessen sem komst að samkomulagi um starfslok við dómsmálaráðuneytið í byrjun desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×