Handbolti

Kemur í ljós um helgina hversu alvarleg meiðsli Hauks eru

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Þrastarson var marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Olís-deildar karla á síðasta tímabili.
Haukur Þrastarson var marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Olís-deildar karla á síðasta tímabili. vísir/vilhelm

Haukur Þrastarson fór meiddur af velli þegar Kielce vann Elverum, 22-31, í Meistaradeild Evrópu í gær. Selfyssingurinn meiddist þegar hann skoraði sitt fyrsta Meistaradeildarmark fyrir Kielce á 19. mínútu. Óttast er að meiðslin séu alvarleg.

Að sögn Arnar Þrastarsonar, bróður Hauks, fer hann í myndatöku í Póllandi á morgun.

„Þeir eru að ferðast frá Noregi núna og læknarnir og sjúkraþjálfararnir vilja ekkert segja fyrr en búið er að mynda hann,“ sagði Örn við Vísi í dag. Hann segir að Haukur ætti að fá niðurstöður úr myndatökunni annað kvöld eða á sunnudaginn.

Örn segist hafa heyrt aðeins í bróður sínum í gær. „Það er ágætis hljóð í honum eftir atvikum,“ sagði hann.

Haukur ristarbrotnaði í sumar en var fljótur að ná sér og í tæka tíð áður en tímabilið hófst.

Haukur, sem er nítján ára, gekk í raðir Kielce frá Selfossi í sumar. Hann samdi upphaflega til þriggja ára við pólska félagið en skrifaði undir nýjan tveggja ára samning skömmu eftir komuna til Póllands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×