Innlent

Staðfestir það sem samtökin óttuðust

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu. Vísir/Arnar

Tveir þriðju fyrirtækja í ferðaþjónustu standa nú frammi fyrir ósjálfbærri skuldsetningu og munu gera á næsta ári, samkvæmt nýrri greiningu KPMG fyrir Ferðamálastofu sem birt var í desember. Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu segir skýrsluna staðfesta það sem samtökin óttuðust. Viðbúið sé að fjöldi fyrirtækja sé á leið í gjaldþrot.

Þessi skýrsla staðfestir það sem við óttuðumst, að rekstrarvandi fyrirtækjanna breytist í skuldavanda ef ekkert er að gert. Það eru um tveir þriðju fyrirtækjanna sem glíma við ósjálfbæran skuldavanda upp úr þessu áfalli og það er mjög erfið staða,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Þýðir það að tveir þriðju fyrirtækja stefna í þrot á næsta ári?

„Það þýðir að tveir þriðju fyrirtækja munu eiga mjög erfitt með að vinna sig upp úr ástandinu. Einhver þeirra munu fara í þrot. Önnur þurfa á innspýtingu á eiginfjármagni að halda eða eftirgjöf skulda eða lengingu í skuldum og svo framvegis. Þannig að spurningin er hvað hægt er að gera í samblandi slíkra leiða, bæði milli kröfuhafa og fyrirtækjanna, hins opinbera og svo framvegis, til þess að reyna að koma í veg fyrir það að þetta muni hamla viðspyrnu ferðaþjónustunnar og efnahagslífsins í heild.“

Jóhannes telur að ferðamenn taki vonandi að koma til landsins í apríl og fyrir alvöru í byrjun maí. Bjartsýni hafi einkennt markaðinn í kjölfar jákvæðra fregna af bóluefni við kórónuveirunni.

„Þó er ekkert í hendi varðandi það og bókanir ekki í raun hafnar að neinu marki. Það tekur lengri tíma. En við erum enn bjartsýn á að þetta byrji í apríl, maí.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×