Handbolti

„Neyðarlið“ Noregs skellti Hvít-Rússum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sebastian Barthold átti flottan leik fyrir lið Norðmanna í kvöld. Hér er hann í leik með Álaborg í Meistaradeildinni gegn Barcelona og Aroni Pálmarssyni.
Sebastian Barthold átti flottan leik fyrir lið Norðmanna í kvöld. Hér er hann í leik með Álaborg í Meistaradeildinni gegn Barcelona og Aroni Pálmarssyni. Javier Borrego/Getty

Til þess að trufla ekki undirbúning sinn fyrir HM í Egyptalandi tefldu Norðmenn fram varaliði í leikjum sínum við Hvíta-Rússland í undankeppni EM í handbolta.

Varaliðið, sem norskir fjölmiðlar hafa kallað „neyðarliðið“, tapaði 33-25 í Hvíta-Rússlandi í fyrr í vikunni eftir að hafa verið 17-10 undir í hálfleik.

Liðin mættust aftur í Noregi í dag og þá höfðu þeir norsku betur, 27-19, eftir að þeir voru 11-10 yfir í hálfleik.

Sebastian Barthold, leikmaður Álaborgar, gerði níu mörk og Aksel Horgen, leikmaður Bjerringbro/Silkeborg, skoraði sjö.

Barys Pukhouski skoraði níu mörk fyrir Hvít-Rússana en Noregur er því með tvö stig í riðlinum rétt eins og Hvíta Rússland og Ítalía. Lettland er án stiga.

Aðallið Noregs tapaði gegn Dönum í æfingaleik í Kolding í gær og spila aftur gegn grönnum sínum í kvöld áður en þeir halda til Egyptalands.

Noregur er í riðli með Austurríki, Frakklandi og Bandaríkjunum á HM en Hvíta-Rússland er í riðli með Slóveníu, Suður Kóreu og Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×