Handbolti

Markmiðið háleitt en allt mögulegt á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Guðmundsson leiðbeinir sínum mönnum á HM í Egyptalandi í byrjun þessa árs. Nú er förinni heitið til Búdapest á EM í janúar.
Guðmundur Guðmundsson leiðbeinir sínum mönnum á HM í Egyptalandi í byrjun þessa árs. Nú er förinni heitið til Búdapest á EM í janúar. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

„Mér finnst allir möguleikar vera í stöðunni,“ segir Guðmundur Guðmundsson, þjálfari karlalandsliðs Íslands í handbolta, sem telur liðið feta sig hægt og rólega í átt að toppi handboltaheimsins.

Guðmundur er á leið með Ísland á EM í Búdapest í janúar. Það verður hans fjórða stórmót eftir að hann tók við landsliðinu í þriðja sinn í febrúar 2018, af Geir Sveinssyni.

Þegar Guðmundur tók við setti hann sér og íslenska landsliðinu háleitt markmið um að komast á ný í hóp átta bestu landsliða heims.

Á HM 2019 endaði Ísland í 11. sæti. Á EM ári síðar komst Ísland áfram úr riðli þar sem Danmörk og Rússland sátu eftir, en endaði aftur í 11. sæti. Á HM í Egyptalandi í byrjun þessa árs, án Arons Pálmarssonar, endaði Ísland hins vegar í 20. sæti.

En hve langt telur Guðmundur sig og íslenska liðið hafa náð á þeirri vegferð að verða eitt af átta bestu landsliðum heims?

„Þetta er mjög slungin spurning. Ég hef yfirleitt sett mér háleit markmið og þetta er mjög háleitt markmið. Við erum að nálgast þetta,“ sagði Guðmundur í viðtali við Guðjón Guðmundsson í vikunni, eftir að hafa valið EM-hópinn sinn.

Klippa: Guðmundur og markmiðið um að komast í hóp átta bestu

„Það vantaði ekki mikið upp á að ná mjög góðum úrslitum á HM, ef við hefðum haft menn þar alla til taks. Við viljum sjá okkur stíga það næsta skref núna að komast í topp tíu, og feta okkur svo áleiðis nær toppnum, hægt og rólega. Mér finnst allir möguleikar vera í stöðunni en við verðum bara að sjá hvað þetta mót felur í sér.

EM er mjög erfitt mót, fá lið í riðli og öll mjög sterk. Það getur allt gerst og ég hef bullandi trú á þessu liði. Ég tel að ef við „hittum á það“ þá sé allt mögulegt,“ sagði Guðmundur og bætti við:

„Þá breytist staðan mjög fljótt hjá íslenska landsliðinu“

„Ég er bjartsýnn. En það er alltaf þannig að maður hugsar; „Sleppum við við meiðsli? Fáum við hópinn eins og hann er sterkastur á þessum tímapunkti, eða koma inn meiðsli eins og gerðist því miður á HM í fyrra?“ Þá féllu út fjórir lykilmenn og þá breytist staðan mjög fljótt hjá íslenska landsliðinu, og hefur alltaf gert frá því að ég man eftir mér.“

Íslenska liðið kemur saman til æfinga hér á landi 2. janúar. Íslendingar mæta Litáum í tveimur vináttulandsleikjum á Ásvöllum 7. og 9. janúar áður en þeir halda til Búdapest í Ungverjalandi þar sem riðill Íslands verður leikinn.

Ísland mætir Portúgal 14. janúar, Hollandi 16. janúar og Ungverjalandi 18. janúar. Tvö efstu liðin í riðlinum komast áfram í milliriðil sem verður einnig leikinn í Búdapest.


Tengdar fréttir

„Höfum áður farið í gegnum mjög erfiða riðla“

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í handbolta segir ljóst að fyrsti leikur á EM, gegn liðinu sem Íslendingar hafa kynnst svo vel á síðustu misserum, sé algjör lykilleikur upp á möguleikann á að komast áfram í milliriðla.

„Ég hef bullandi trú á þessu liði“

Guðmundur Guðmundsson segist bjartsýnn á að Ísland geri betur á EM í næsta mánuði en á HM í Egyptalandi fyrir tæpu ári síðan, þó að hann hafi reyndar verið ánægður með margt á því móti.

EM-hópur Íslands í Búdapest

Nú er orðið ljóst hvaða leikmenn fara fyrir Íslands hönd á Evrópumótið í handbolta karla í janúar, þar sem Ísland mun spila sína leiki í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×