Handbolti

Guðmundur: Ég hræðist ekki neitt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur hefur verið líflegur á hliðarlínunni.
Guðmundur hefur verið líflegur á hliðarlínunni. vísir/epa

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari hefur slæma reynslu af leikjum gegn Ungverjum í gegnum tíðina en vonast eðlilega eftir því að breyting verði á að þessu sinni.

„Tilfinningin er góð. Við höfum farið vel yfir þeirra leik. Þetta er gott lið og líkamlega sterkt. Við lentum í vandræðum með línuspilið þeirra fyrir tveimur árum síðan og verðum að leysa það. Línumaðurinn fór illa með okkur þá,“ segir Guðmundur.

„Síðan þurfum við að spila vel í sókninni því þeir hafa oft þétt raðirnir með sína stóru leikmenn. Ég tel okkur hafa spilað frábærlega í þessu móti gegn 6/0 vörn og hef fulla trú á því að við munum gera það líka í þessum leik. Ég hræðist ekki neitt hvað það varðar. Þetta verður hörkuleikur og erfiður.

„Mér finnst við geta farið fullir sjálfstrausts í þennan leik og margt sem ég hef verið mjög sáttur við hjá okkur á mótinu.“

Ungverjar hafa alls ekki verið sannfærandi á mótinu sem hefur komið mörgum á óvart. Er liðið ekki betra en þetta eða hefur það verið að spila undir getu?

„Það er góð spurning og ég hef velt þessu fyrir mér. Ég held að það hafi spilað inn í hjá þeim að það er pressa á þeim sem heimalið. Þá getur þetta verið erfitt. Kannski losnaði um pressuna í síðasta leik en við erum ekkert að hugsa um það heldur fókuserum á okkur,“ segir Guðmundur og telur liðið standa vel fyrir stóra prófið.

„Við erum búnir að standast fyrstu prófin og mér finnst liðið hafa spilað vel á stórum köflum. Við getum enn bætt okkur.“

Klippa: Guðmundur er hvergi banginn

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×