Handbolti

„Martröð“ fyrir Svía sem eru á leið í úrslitaleik við Norðmenn

Sindri Sverrisson skrifar
Andreas Palicka er lentur í einangrun og ver því ekki mark Svía á morgun.
Andreas Palicka er lentur í einangrun og ver því ekki mark Svía á morgun. Getty/Nebojsa Tejic

Svíar þurfa að berjast um sæti í undanúrslitum á EM í handbolta án markvarðarins frábæra Andreas Palicka og miðjumannsins Felix Claar sem er þriðji markahæstur í liðinu á mótinu.

Svíþjóð mætir Noregi á morgun í leik sem sker úr um það hvort Svíar komast áfram en til þess þurfa þeir sigur.

Það verða Svíar hins vegar að gera án Palicka og Claar sem nú eru komnir í einangrun. Sænska blaðið Aftonbladet lýsir þessu sem „matröð“.

Felix Claar er þriðji markahæstur í liði Svía á EM.Getty/ Jozo Cabraja

„Því iður fengum við send þessi sorglegu skilaboð og það er auðvitað skellur að geta ekki notað þessa tvo góðu leikmenn í svo mikilvægum leik, en á sama tíma er ekkert sem við getum gert í þessu núna. Nú eru komnar upp nýjar aðstæður hjá okkur fyrir leikinn við Noreg og við ætlum að berjast um sæti í undanúrslitum án Andreas og Felix,“ sagði Glenn Solberg landsliðsþjálfari Svía.

Áður höfðu Niclas Ekberg og Daniel Pettersson lent í einangrun vegna kórónuveirusmita en þeir gætu mögulega losnað fyrir leikinn við Noreg.

Jonathan Edvardsson, leikmaður Hannover, hefur verið kallaður inn í stað Claars og Fabian Norsten, markvörður Skövde, í stað Palicka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×