Handbolti

Aron náði í farseðil á HM á meðan að sonurinn reynir það sama á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Kristjánsson er kominn með landslið Barein í undanúrslit á Asíumótinu. Darri Aronsson lék sinn fyrsta A-landsleik í gær, gegn Króatíu.
Aron Kristjánsson er kominn með landslið Barein í undanúrslit á Asíumótinu. Darri Aronsson lék sinn fyrsta A-landsleik í gær, gegn Króatíu. EPA/Getty

Aron Kristjánsson er að gera góða hluti með landsliðs Barein á Asíumótinu í handbolta og nú þegar er liðið búið að tryggja sér farseðilinn á heimsmeistaramótið á næsta ári.

Barein hefur unnið alla sína leiki til þessa á Asíumótinu, nær alla af miklu öryggi. Liðið slapp reyndar við að mæta Japan, undir stjórn Dags Sigurðssonar, því Japanar hættu við þáttöku á mótinu eftir hópsmit í þeirra herbúðum um áramótin.

Með 34-31 sigri gegn Írak í gær er Barein búið að tryggja sér sæti í undanúrslitum, þrátt fyrir að eiga eftir leik við Íran á morgun. Fimm efstu liðin á mótinu fá farseðil á HM sem fram fer í Póllandi og Svíþjóð á næsta ári.

Sonur Arons, Darri, var kallaður inn í íslenska landsliðshópinn á EM í Búdapest um helgina og lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Króatíu í gær.

Ísland freistar þess að tryggja sig einnig á HM en á Evrópumótinu fá aðeins þrjú efstu liðin öruggan farseðil á HM. Önnur lið á mótinu leika í umspili síðar á þessu ári, en öruggt er að Ísland verður að minnsta kosti í efri styrkleikaflokki fari liðið í það umspil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×