Umfjöllun: Svartfjallaland - Ísland 24-34 | Stórkostlegur sigur og erfið bið

Ingvi Þór Sæmundsson og Sindri Sverrisson skrifa
Íslensku strákarnir fögnuðu mögnuðum sigri gegn Svartfellingum í dag.
Íslensku strákarnir fögnuðu mögnuðum sigri gegn Svartfellingum í dag. EPA-EFE/Tibor Illyes

Ísland á enn möguleika á enn von um að komast í undanúrslit á EM í handbolta eftir stórkostlega frammistöðu gegn Svartfjallalandi og 34-24-sigur í Búdapest í dag.

Ísland lagði grunninn að sigrinum með algjörlega mögnuðum fyrri hálfleik þar sem Svartfellingar fengu ekki að skora nema átta mörk, framhjá frábærum Viktori Gísla Hallgrímssyni og þéttofinni vörn. Staðan að honum loknum var 17-8.

Ísland hleypti Svartfjallalandi ekki of nálægt sér í seinni hálfleiknum og vann að lokum stórsigur. Ómar Ingi Magnússon varð markahæstur með 11 mörk og Bjarki Már Elísson, nýkominn úr einangrun, skoraði úr öllum átta skotum sínum.

Örlögin í höndum Dana og Frakka

Nú tekur við erfið bið fram á kvöld eftir úrslitunum úr leik Danmerkur og Frakklands, sem hefst klukkan 19.30. Ef að Danmörk vinnur þann leik kemst Ísland í undanúrslit og mætir ríkjandi Evrópumeisturum Spánar á föstudaginn.

Ef að Frakkar vinna Dani, eða liðin gera jafntefli, endar Ísland í 3. sæti milliriðils II og leikur við Noreg á föstudaginn um 5. sæti mótsins, þar sem öruggur farseðill á HM yrði í húfi.

Versta mögulega niðurstaða Íslands úr þessu, þrátt fyrir þau miklu áföll sem falist hafa í kórónuveirusmitum ellefu leikmanna, er því 6. sæti, sem væri hreint út sagt magnaður árangur. Besta mögulega niðurstaða er auðvitað eitt stykki Evrópumeistaratitill.

Ómar Ingi Magnússon átti stórleik sem fyrr og leiddi sóknarleik Íslands.EPA-EFE/Tibor Illyes

Eftir gleðifréttirnar við að fá Aron Pálmarsson, Bjarka Má Elísson og Elvar Örn Jónsson inn í liðið úr einangrun skömmu fyrir leik, var það nýtt áfall að Aron skyldi þurfa að fara af velli til aðhlynningar eftir aðeins fimm mínútna leik.

Aron hafði skorað fyrstu tvö mörk leiksins og virtist, rétt eins og Bjarki og Elvar, ferskur og orkumikill eftir alla einveruna inni á hótelherbergi síðustu viku en eitthvað kom upp á sem læknir og sjúkraþjálfarar Íslands reyndu að bregðast við.

Íslenska liðið lét þetta hins vegar ekki á sig fá, og Elvar Ásgeirsson átti sem fyrr stóran þátt í því með stórgóðri frammistöðu í vinstri skyttustöðunni.

Ýmir Örn Gíslason og félagar, sumir glænýir, voru klárir í slaginn í vörninni og Viktor Gísli Hallgrímsson stórkostlegur í fyrri hálfleik.EPA-EFE/Tibor Illyes

Svartfellingar fengu ekki að skora fyrsta markið sitt fyrr en eftir tæplega sjö mínútna leik, og gekk bölvanlega að skora nær allan fyrri hálfleikinn.

Þar munaði miklu um Viktor Gísla Hallgrímsson sem þriðja leikinn í röð byrjaði frábærlega en hann varði um helming skota sem hann fékk á sig í fyrri hálfleiknum.

Bjarki kom Íslandi í 6-1 eftir ellefu mínútna leik, með sínu þriðja marki, eftir að Þráinn Orri Jónsson hafði átt stóran þátt í að vinna boltann í vörninni.

Þráinn er nýmættur til Búdapest frá Ásvöllum en var skellt beint í djúpu laugina og stóð oft miðja vörnina, til að mynda á þessum tímapunkti eftir að Ýmir Örn hafði fengið brottvísun. Hann skoraði líka úr báðum skotum sínum í leiknum.

Nemanja Grbovic og Þráinn Orri Jónsson eins og mestu mátar í frumraun Þráins á stórmóti.Getty/Sanjin Strukic

Ýmir og Elvar Örn endurnýjuðu annars kynnin í miðri vörn Íslands en hver svo sem spilaði þá var vörnin stórkostleg. Eina viðspyrna Svartfellinga í fyrri hálfleik kom eftir nokkur mistök í röð í sókn Íslands þegar leið að hléi, og með þremur mörkum í röð minnkuðu þeir muninn (!) í 12-7.

Guðmundur Guðmundsson brást við með yfirveguðu leikhléi og með mögnuðum endaspretti jók Ísland muninn mest í tíu mörk í fyrri hálfleik, en staðan eftir hann var 17-8.

Vujovic reyndi að draga Svartfellinga inn í leikinn

Milos Vujovic sá um að draga Svartfellinga inn í leikinn með sjö mörkum snemma í seinni hálfleik, hafði þá skorað ellefu alls úr aðeins tólf skotum, og minnkaði muninn í fimm mörk, 21-16, þegar átján mínútur voru eftir.

Álag síðustu daga virtist farið að segja til sín hjá lykilmönnum íslenska liðsins og sóknaraðgerðirnar oft þreytulegar, en Guðmundur brá á það ráð að taka leikhlé þar sem hann hvatti menn til að missa ekki hausinn og gefa sér tíma í sóknirnar.

Með þessu leikhléi varð nauðsynlegur viðsnúningur. Ómar Ingi skoraði strax úr næstu sókn, sitt áttunda mark, og Nebojsa Simic markvörður Svartfellinga fékk brottvísun fyrir óverðskulduð mótmæli. Bjarki skoraði svo úr hraðaupphlaupi og jók muninn í 23-16 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður.

Bjarki Már Elísson og Elvar Ásgeirsson stóðu vel fyrir sínu í dag á vinstri væng Íslands.Getty/Sanjin Strukic

Viktor Gísli hélt ekki sama dampi og í fyrri hálfleik en að sama skapi fundu markverðir Svartfjallalands aldrei svör gegn íslenska liðinu. Ísland hélt því 6-8 marka forskoti þar til að Bjarki jók muninn í níu mörk þegar rúmar sex mínútur voru eftir, úr hálfómögulegu færi, með sínu sjöunda marki úr jafnmörgum tilraunum. Þar með vissu allir að björninn væri unninn.

Guðmundur gat leyft sér að gefa Ómari Inga hvíld síðustu fimm mínúturnar, eftir að Ómar hafði skorað sitt ellefta mark, en hann átti enn einn stórleikinn fyrir íslenska liðið og fór fyrir liðinu í sókninni.

Strákarnir fá nú tvo sólarhringa til að jafna sig fyrir átökin á föstudag, vonandi gegn Spáni en annars gegn Noregi.


Tengdar fréttir

Elvar: Ótrúlega gaman að komast út úr herberginu

„Það er ótrúlega gaman að fá að spila aftur og komast út úr herberginu,“ sagði Elvar Örn Jónsson eftir stórsigurinn gegn Svartfjallalandi á EM, nokkrum klukkutímum eftir að hafa losnað úr einangrun vegna kórónuveirusmits.

„Ætla ekki að nota orkuna í að horfa á þennan leik“

„Ég ætla að leggjast upp í rúm og reyna að hvíla mig aðeins, og sleppa því að horfa á sjónvarpið. Ég ætla ekki að nota orkuna í að horfa á þennan leik,“ segir Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari um leik Dana og Frakka í kvöld, sem ræður því hvort Ísland kemst í undanúrslit á EM.

Þráinn Orri: Ætlaði ekki að vera eins og hver annar túristi

Þráinn Orri Jónsson kom inn á í sínum fyrsta landsleik þegar Ísland vann Svartfjalland, 24-34, í lokaleik sínum í milliriðli I í dag. Þráinn kom til móts við íslenska liðið á sunnudaginn og sat allan tímann á bekknum í tapinu fyrir Króatíu, 22-23, á mánudaginn. En hann fékk tækifæri í dag og stóð sig vel.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira