Handbolti

Danir ánægðir með son Palickas og sendu honum áritaða treyju frá Landin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aston Landin fær þessa árituðu treyju bráðum í hendurnar.
Aston Landin fær þessa árituðu treyju bráðum í hendurnar.

Sonur Andreas Palicka, markvarðar Evrópumeistara Svía, á von á áritaðri treyju frá Niklas Landin, landsliðsmarkverði Dana.

Aston, níu ára sonur Andreas Palicka, fór á kostum í viðtali þegar tekið var á móti sænsku Evrópumeisturunum á flugvellinum í Stokkhólmi í gær.

Guttinn var að vonum ánægður með pabba sinn en gat ekki stillt sig um að skjóta aðeins á hann. Aston var meðal annars spurður hvernig það væri að sjá pabba koma heim með gullmedalíu um hálsinn. „Skrítið. Vanalega kemur hann heim með silfur eða brons,“ svaraði Aston.

Aðspurður sagði hann að pabbi sinn væri mjög góður markvörður en þó ekki betri en Landin.

Danir höfðu greinilega gaman að svörum stráksins. Þeir hrósuðu honum fyrir viðtalið og á Twitter-síðu danska handknattleikssambandsins sögðust þeir ætla að senda honum áritaða treyju frá Landin í pósti. Og þá óskuðu þeir grönnum sínum til hamingju með gullverðlaunin.

Landin og Palicka eiga það sameiginlegt að hafa spilað með Kiel og Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi. Landin leikur með Kiel í dag en Palicka með Redberglids í heimalandinu. Eftir tímabilið fer hann svo til Paris Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×