Fótbolti

Knatt­spyrnu­maður í tíu ára bann frá fót­bolta fyrir veð­mála­svindl

Atli Arason skrifar
Kynan Isaac, leikmaður Stratford Town.
Kynan Isaac, leikmaður Stratford Town. Mark Williamson/Stratford Herald

Kynan Isaac, leikmaður Stratford Town, hefur verið úrskurðaður í 10 ára bann af enska knattspyrnusambandinu vegna veðmála hans á eigin knattspyrnuleiki.

Knattspyrnuferill hins 29 ára gamla Isaac er því svo gott sem lokið. Leikmaðurinn má ekki spila annan leik fyrr en örfáum mánuðum fyrir fertugsafmælið sitt en Isaac verður fertugur þann 1. janúar 2033. Bannið er eitt það lengsta sem enska knattspyrnusambandið hefur úrskurðað og er það talið setja fordæmi fyrir aðra leikmenn í enskum fótbolta.

Isaasc var fundinn sekur fyrir að veðja á eigin leik þegar Stratford tapaði 5-1 gegn Shrewsbury í FA bikarnum á síðasta tímabili en Isaac reyndi m.a. vísvitandi að fá gult spjald í leiknum.

Sjálfur segist leikmaðurinn vera saklaus en í tilkynningu knattspyrnusambandsins kemur fram að Isaac hafi hundsað ámæli sambandsins og ekki komið með nein sönnunargögn sínu máli til stuðnings, til að mynda upplýsingar af veðmálareikningum eða farsímagögn.

Alls er Isaac fundinn sekur um að leggja 347 veðmál á eigin leiki yfir 18 mánaða tímabil. Knattspyrnusambandið fékk ábendingar frá veðmálafyrirtækjum þegar óvenju háar upphæðir voru lagðar á gul spjöld í leiki liðs í sjöundu efstu deild Englands. Eftir rannsókn sambandsins kom í ljós að veðmálin komu frá Isaac og aðilum tengdum honum. Ekki liggur fyrir hve mikið Isaac og félagar græddu á veðmálabraskinu.

Kynan Isaac kom upp í gegnum unglingastarf Reading og lék meðal annars fyrir Luton og Oxford City á 12 ára löngum knattspyrnuferli




Fleiri fréttir

Sjá meira


×