Handbolti

Við­­brögð Gunnars eftir súra upp­­lifun séu að­dáunar­verð: „Takk Gunnar“

Aron Guðmundsson skrifar
Kristinn Óskarsson (til hægri) er ánægður með það hvernig Gunnar Magnússon (til vinstri), þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handbolta, kom frá sér gagnrýni á störf dómara í leik liðsins gegn Haukum á dögunum
Kristinn Óskarsson (til hægri) er ánægður með það hvernig Gunnar Magnússon (til vinstri), þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handbolta, kom frá sér gagnrýni á störf dómara í leik liðsins gegn Haukum á dögunum Vísir/Samsett mynd

Körfu­knatt­leiks­dómarinn Kristinn Óskars­son þakkar Gunnar Magnús­syni, þjálfara karla­liðs Aftur­eldingar í hand­bolta fyrir yfir­vegaða og sann­gjarna gagn­rýni hans á störf dómara í leik Aftur­eldingar og Hauka í Olís deild karla á dögunum.

Kristinn ritar í dag pistil sem hann birtir á sam­fé­lags­miðlinum Face­book og ber nafnið „Að gagn­rýna dómara og störf þeirra.“

Pistilinn ritar Kristinn í kjöl­far við­tals sem tekið var við Gunnar Magnús­son, þjálfara Hauka í út­sendingu Stöðvar 2 Sport eftir leik Hauka og Aftur­eldingar í úr­slita­keppni Olís deildarinnar í hand­bolta.

Í við­talinu átti Gunnar mjög erfitt með sig eftir um­deildan endi á öðrum leik liðanna í um­ræddri úr­slita­keppni en leiknum lauk með eins marks sigri Hauka sem náðu um leið að jafna ein­vígið gegn Aftur­eldingu.

Haukar skoruðu sigur­markið á loka­sekúndum leiksins en í að­draganda marksins mátti klár­lega sjá að brotið var á leik­manni Aftur­eldingar, eitt­hvað sem fór fram hjá dómurum leiksins.

„Ég held að það sjái það allir í húsinu að auð­vitað var þetta vara fríkast,“ sagði Gunnar í við­talinu og bætti við: „Auð­vitað hljóta dómararnir að vera svekktastir af öllum hérna og svekktari en við. Horfðu bara á þetta. Guð minn al­máttugur.“

„Dómarar þrá faglega gagnrýni“

Við­talið við Gunnar vakti at­hygli hjá Kristni Óskars­syni, einum reynslu­mesta körfu­knatt­leiks­dómara landsins og tjáir hann sig um það í pistli á Face­book.

„Ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt að dómarar bregðist illa við gagn­rýni, að þeir þoli hana illa og vilji hana ekki. "Það má ekki gagn­rýna dómara!". Þetta er frasinn. Fátt er meira fjarri sanni,“ skrifar Kristinn í pistli sínum.

Kristinn Óskarsson að störfum sem dómari. Hér ræðir hann við Helga Magnússon, þjálfara KR.Vísir/Vilhelm

Kristinn segir dómara þrá fag­­lega gagn­rýni, gagn­rýni sem byggi á þekkingu og greiningu og hafi þann til­­­gang að bjóða upp á lær­­dóm, visku og þroska.

„Þjálfarar eru ráðnir til að ná árangri í í­­þróttum og gæta hags­muna síns liðs. Há­­marka sigur­líkur. Það er því inn­bundið í kerfið að þeir verða reglu­­lega fyrir von­brigðum með að ná ekki fram mark­miðum sínum. Oftast er það vegna þess að and­­stæðingurinn var betri, amk í þessum leik.“

Svo geti ýmis ó­­vænt at­vik, eins og meiðsli og for­­föll sett strik í reikninginn.

„Að maður tali nú ekki um þjálfunina, undir­­búninginn, liðs­­upp­­­stillingu, taktík, skiptingar og annað sem þjálfarinn ber á­byrgð á og getur farið úr­­­skeiðis. Og svo dóm­­gæslan.“

Yfirvegun og sanngirni Gunnars sé aðdáunarverð

Mis­tök dómara séu viður­­kenndur hluti af leiknum.

„Alveg þangað til okkar eigið lið ber skarðan hlut frá borði. Þá eru þau ó­­á­­sættan­­leg og ýmsar hugsanir sækja á. Ekki alltaf allar fal­­legar. Mis­tök dómara hafa þann leiða fylgi­­fisk að bitna á öðru liðinu (jafnast út yfir tíma vonar fólk).“

Gunnar Magnússon á hliðarlínunniVísir/Hulda Margrét

Og snýr Kristinn sér þá að við­talinu við Gunnar Magnús­­son.

„Hann er sann­­færður um að dómarar hafi gert mis­tök sem mögu­­lega höfðu á­hrif á úr­­slit leiks. En yfir­­vegun hans og sann­­girni þegar hann nálgast efnið er að­dáunar­verð. Gagn­rýnin er skýr og hann sendir á­byrgðina þangað sem hann telur hana eiga heima. Hann má það.“

Það megi allir hafa skoðun á dóm­­gæslu.

„Það má fjalla um dóm­­gæslu þegar upp á vantar. Það er bara hægt að gera það með reisn og virðingu. Takk Gunnar (þekki manninn ekkert).“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×