Innlent

Ó­væntur brimbretta­kappi og úr­ræða­góður lykla­laus íbúi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Heiðar Logi er þekktasti brimbrettakappi landsins og það er spurning hvort sást til hans utan við Seltjarnarnes. Mynd tengist frétt ekki beint heldur er hún úr heimildamynd Red Bull um kappann.
Heiðar Logi er þekktasti brimbrettakappi landsins og það er spurning hvort sást til hans utan við Seltjarnarnes. Mynd tengist frétt ekki beint heldur er hún úr heimildamynd Red Bull um kappann. Red Bull

Nokkuð var um ölvaða einstaklinga sem voru til vandræða í miðborginni í gær samkvæmt dagbók lögreglu. Þá voru nokkrir ökumenn handteknir fyrir að aka undir áhrifum áfengis og fíkniefna. En lögreglan stóð líka í nokkrum óvenjulegum málum.

Lögreglunni barst tilkynning um hlut í sjónum úti við Seltjarnarnes. Þegar lögregla kom á vettvang kom í ljós að hluturinn var ekki hlutur heldur brimbrettakappi að leik í sjónum.

Í Laugardalnum sást til manns klifra upp svalir í íbúðarhúsnæði og var lögreglan kölluð til. Þegar lögreglan bankaði upp á reyndist viðkomandi velkominn á heimilið samkvæmt íbúum. Hann var sjálfur íbúi en hafði gleymt húslyklum og vildi ekki ónáða sambýlisfólk sitt.

Tilkynnt var um þjófnað úr verslun í Múlunum og annars staðar var tilkynnt um þjófnað á rafmagnshlaupahjóli. Þá varð umferðarslys í Laugardalnum og í Grafarvoginum höfðu verið unnin eignaspjöll á rútu. 

Brennandi bíll og klesstur bíll

Það var nokkuð um að vera í Hafnarfirðinum. Eldur kviknaði í bifreið í miðbæ Hafnarfjarðar og var lögregla kölluð til. Þá varð árekstur í sama hverfi og flúði annar ökumanna af vettvangi.

Lögreglunni barst tilkynning um einstakling í annarlegu ástandi í hverfi 220 og var viðkomandi ekið heim til sín. 

Þá varð líkamsárás í hverfi 111 í Breiðholtinu en lögreglan greinir ekki frekar frá málsatvikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×