Innlent

Mikið um líkams­á­rásir og ölvunar­akstur

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Lögreglu barst þó nokkur fjöldi tilkynninga um líkamsárásir. Þá var fjöldi ökumanna handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum.
Lögreglu barst þó nokkur fjöldi tilkynninga um líkamsárásir. Þá var fjöldi ökumanna handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum. Vísir/Vilhelm

Lögreglu barst töluverður fjöldi tilkynninga um líkamsárásir í nótt. Þá var fjöldi fólks handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þar segir að lögreglu hafi borist þrjár tilkynningar um líkamsárásir í hverfi 101 í miðborginni. Ein þeirra átti sér stað á skemmtistað og var gerandi vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins. Þá áttu tvær líkamsárásir sér stað í íbúðahverfi í 101. Einnig var maður handtekinn vegna ofbeldis gagnvart opinberum starfsmanni við skyldustörf.

Þá átti sér stað líkamsárás í Múlunum og var gerandi vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins. Í sama hverfi barst tilkynning um að einhver hefði brotið rúðu á húsnæði.

Lögreglu bárust einnig tilkynningar um þjófnað og innbrot. Brotist var inn í bíl í miðborginni og bárust tilkynningar um þjófnað úr verslun í hverfi 103 og skemmtistað í miðborginni.

Grunsamlegar mannaferðir og partýhávaði

Lögreglan setti upp ölvunarpóst í miðbæ Hafnarfjarðar (hverfi 220) þar sem 120 ökumenn voru látnir blása í áfengismæli. 

Af 120 ökumönnum voru tveir ökumenn undir refsimörkum, aðrir reyndust ekki undir áhrifum. Þessum tveim einstaklingum var gert að stöðva akstur.

Í Kópavogi og Breiðholti barst fjöldi tilkynninga um hávaða í heimahúsum og mikið af tilkynningum um grunsamlegar mannaferðir.

Lögreglu barst tilkynning um tvær brotnar rúður í húsnæði eftir grjótkast í Árbænum. Þá barst henni einnig tilkynning um innbrot í heimahúsi í hverfi 113.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×