Innlent

Ekki samúð með kennurum?

Foreldrar virðast ekki hafa mikla samúð með grunnskólakennurum í verkfalli, ef marka má þá sem fréttastofan hitti í dag. Fram kom í skoðanakönnun Fréttablaðsins á sunnudag, daginn fyrir boðað verkfall, að 76% þjóðarinnar væru andvíg kennaraverkfalli. Kennarar skýra það með því að verkfallsaðgerðir séu aldrei vinsælar en framkvæmdastjóri Heimilis og skóla telur skýringuna þá að margir telji kennara hafi samið mjög vel í síðustu samningum. Fréttastofan tók nokkra foreldra tali í dag þegar þau komu með börn sín í barnagæslu starfsmanna Íslandsbanka og Sjóvár-Almennra í morgun. Flestir töldu kröfur kennara um launahækkanir of miklar. Og foreldrarnir sem rætt var við lýstu allir yfir stuðningi sínum við þá starfsemi fyrirtækjanna að halda uppi skipulagðri barnagæslu, og fannst af og frá að þar væri um verkfallsbrot að ræða eins og kennarar halda fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×