Innlent

Hefur lýst kröfu í þrotabú bræðra

Síminn hefur þegar lýst yfir kröfum í þrotabú bræðranna Sveinbjörns Kristjánssonar og Kristjáns Ragnars Kristjánssonar vegna Landssímamálsins svokallaða. Síminn vill ekki gefa upp þá fjárhæð sem krafist hefur verið að bræðrunum en heildarupphæð krafna vegna málsins að hálfu Símans verður 246 milljónir króna eða jafn há þeirri bótakröfu sem vísað var frá Héraðsdómi Reykjavíkur þegar kveðinn var upp dómur yfir þeim Sveinbirni, Kristjáni Ragnari, Árna Þór Vigfússyni og Ragnari Orra Benediktssyni. Að sögn Evu Magnúsdóttur, upplýsingafulltrúa Símans, verða gerðar kröfur í eignir þeirra Árna Þórs og Ragnars Orra innan skamms þar sem dómur Hæstaréttar hefur fallið. Þá var tekið fyrir mál gegn fjórmenningunum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en þeir eru ákærðir fyrir að hafa ekki staðið skil á um 56 milljónum króna í virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda. Með fjórmenningunum er Stefán Hjörleifsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Japis, ákærður. Meint brot eru vegna fyrirtækjanna Ísafoldarhússins, Japis, Kaffi Le, Lífsstíls og Planet Reykjavíkur, en öll hafa þau verið úrskurðuð gjaldþrota. Hluti skuldarinnar hefur verið greiddur en vegna erfiðrar fjárhagsstöðu fyrirtækjanna bárust greiðslurnar oft eftir gjalddaga. Samkvæmt íslenskum skattalögum telst brotið fullframið sé ekki greitt á gjalddaga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×