Innlent

Jón Gerald mætti í yfirheyrslu

Jón Gerald Sullenberger mætti til yfirheyrslu hjá Ríkislögreglustjóra klukkan níu í gærmorgun í tengslum við rannsókn á hugsanlegum fjárdrætti núverandi og fyrrverandi forstjóra Baugs og öðrum mögulegum brotum þeirra gegn fyrirtækinu. Rannsókn lögreglu hefur staðið í tæp þrjú ár, frá ágústlokum 2002. Fjölmiðlar hittu Jón Gerald fyrir þegar hann mætti til yfirheyrslu en hann vildi lítið tjá sig um málið. Samkvæmt heimildum blaðsins er þetta í fjórða eða fimmta sinn sem Jón Gerald kemur til yfirheyrslu. Gagnrýnt hefur verið hversu langan tíma rannsóknin tekur, en tvö ár munu hafa liðið frá því lögregla réðist inn í höfuðstöðvar Baugs þar til endurskoðunarfyrirtæki var falið að skoða 33 mánaðarlega reikninga sem Jón Gerald og forsvarsmenn Baugs greindi á um strax í upphafi. Hvorki náðist í Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóra Baugs, né Tryggva Jónsson, fyrrum forstjóra. Báðir hafa vísað á bug sakargiftum þeir eru bornir. Jón H. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, segist ekki vilja tjá sig um gang rannsóknarinnar að öðru leyti en því að hún standi enn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×