Innlent

GPRS-þjónusta hjá Og Vodafone

Og Vodafone hefur gert samning við Landssíma Íslands um GPRS-reikiþjónustu. Samningurinn gerir viðskiptavinum Og Vodafone mögulegt að nota GPRS þar sem farsímakerfi fyrirtækisins lýkur. GPRS (General Packet Radio Service) er gagnflutningsþjónusta fyrir farsíma og gerir notendum kleift að miðla myndum, hreyfimyndum og gögnum. Einnig er hægt að vafra um á Netinu og sýsla með tölvupóst með GPRS. Gagnahraði í GPRS getur náð allt að því 40 Kb/s. Farsímakerfi Og Vodafone nær nú til um 98% landsmanna. Unnið er að því að efla þjónustusvæðið enn frekar, svo sem á Suðurlandi og Norðurlandi. Þá er stöðugt unnið að því að þétta kerfið og tryggja umframgetu á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu frá Og Vodafone segir að fyrirtækið hafi einnig yfir að ráða öflugu reikiumhverfi erlendis en fyrirtækið hefur nú þegar gert 213 reikisamninga í 102 löndum um heim allan. Nýjustu samningar vegna GSM-reiki ná til Kólumbíu, Ekvador, Argentínu, Brasilíu og Mósambík svo dæmi séu tekin. Fjölmargir samningar til viðbótar eru í deiglunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×