Innlent

Engin rök fyrir sölu grunnnetsins hafa staðist

MYND/Vilhelm

Engin rök ríkisstjórnarinnar fyrir því að selja grunnnet Símans með fyrirtækinu hafa staðist. Þessu hélt Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fram á Alþingi í dag. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir að allir þeir ráðgjafar sem leitað hafi verið til við söluna hafi verið sammála um að réttast væri að selja Símann og grunnetið saman.

Ingibjörg Sólrún sagði að rök ríkisstjórnarinnar fyrir því að að skilja ekki netið frá öðrum þjónustuþáttum Símans fyrir söluna hafi verið þríþætt: Í fyrsta lagi að þetta væri flókin og kostnaðarsöm aðgerð, í öðru lagi að það stangaðist á við lög ESB um samkeppni í rekstri grunneta, og í þriðja lagi að grunnnetið væri svo afgerandi hluti af Símanum að mun lægra verð fengist fyrir fyrirtækið ef netið væri ekki með í pakkanum. Nú sé hins vegar að koma á daginn að ekkert af þessu standist.

Forsætisráðherra svaraði því til að allir þeir ráðgjafar sem leitað hafi verið til við söluna hafi verið sammála um að réttast væri að selja Símann og grunnetið saman. Þá sagði hann að viðræður ættu sér nú stað á milli Símans og Orkuveitu Reykjavíkur um samnýtingu á ljósleiðaraneti, þar sem net símans væri miklu eldra og úreltara, og kvaðst hann binda vonir við að samningar næðust þar um.

Ingibjörg Sólrún var ekki sátt við svör ráðherrans og sagði ekkert nýtt hafa komið fram í svari hans. Forsætisráðherra fannst eðlilegt að ekkert nýtt kæmi fram í svari hans þar sem ekkert nýtt hafi komið fram í fyrirspurninni, og ekkert nýtt væri að frétta í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×