Innlent

Formaður ÖBÍ vill skýr svör frá stjórnmálaflokkunum

MYND/Teitur

Enginn hefur komið vel út úr stríði stjórnvalda og öryrkja, og því nauðsynlegt að beita öðrum aðferðum í framtíðinni, að sögn formanns Öryrkjabandalagins. Hann vill skýr svör frá stjórnmálaflokkunum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor hvernig þeir hyggist taka þátt í mótun betra velferðarkerfis.

Öryrkjabandalag Íslands, Landssamband eldri borgara og Landssamtökin Þroskahjálp héldu blaðamannafund á Hótel Sögu í morgun þar sem kynntar voru tillögur 56 manna hóps um nauðsynlegar úrbætur í velferðakerfinu. Tillögurnar snúa að fimm þáttum: almannatrygginga- og skattkerfinu; atvinnuþátttöku öryrkja og eldri borgara; í þriðja lagi menntun, hæfingu og endurhæfingu; búsetu, fjölskyldulífi og stoðþjónustu í fjórða lagi, og síðast en ekki síst aðgengi að og hönnun heilbrigðisþjónustu.

Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalagsins, segir að tillögurnar hafi þegar verið kynntar stjórnmálaflokkunum. Hann býst við viðbrögðum frá þeim á næstunni, jafnvel í næstu viku. Aðspurður segist Sigursteinn vilja skýr svör frá stjórnmálaflokkunum, og ekki aðeins fyrir þingkosningarnar á næsta ári heldur fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor, hvernig þeir hyggist taka þátt í mótun og úrvinnslu hugmyndanna og þar með betra velferðarkerfis.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×