Innlent

Góður gangur í viðræðum SFR og svæðisskrifstofa

Góður gangur er í viðræðum SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu, og forsvarsmanna svæðiskrifstofa um málefni fatlaðra. Jafnvel er búist við að samningar náist um helgina og þannig verði hægt að afstýra setuverkföllum á sambýlum og öðrum starfsstöðvum fyrir fatlaða.

Viðræðurnar hófust í gær á ný eftir nokkurra vikna hlé. Rætt er um launahækkanir til handa starfsmönnum á sambýlum og öðrum starfsstöðvum fyrir fatlaða innan svæðisskrifstofanna, á Skálatúni og hjá Styrktarfélagi vangefinna.

Viðræðurnar ná til um 800 starfsmanna sem krefjast sambærilegra kjara og starfsmenn sveitarfélaga í sambærilegum störfum. Töluverð starfsmannavelta hefur verið á mörgum sambýlanna, sérstaklega suðvestanlands, vegna þenslu á vinnumarkaði, en grunnlaun þeirra sem eru að byrja í starfi á sambýli eru nú um 106 þúsund krónur.

 

Viðræður milli SFR og svæðisskrifstofanna héldu áfram í morgun og að sögn Árna Stefáns Jónssonar, framkvæmdastjóra SFR, er góður gangur í þeim. Honum sýnist sem forsvarsmenn heimilanna hafi mun víðtækara samningsumboð nú en þegar það slitnaði upp úr viðræðum. Aðspurður sagðist hann vongóður um að það tækist að semja um helgina og þannig afstýra boðuðum setuverkföllum í næstu viku, en starfsmenn hafa boðað sólarhringsverkfall frá miðnætti 16. maí og fjögurra sólarhringa verkfall frá 19. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×