Innlent

Greiða rúmlega 14 milljarða fyrir West Ham United

Eggert Magnússon og félagar sömdu í dag um kaup á meirihluta í breska knattspyrnufélaginu West Ham United. Kaupverðið er 108 milljónir punda eða um 14 milljarðar króna.

Barist hefur verið um félagið síðustu vikur og einvígið staðið milli Eggerts og íranska kaupsýslumannsins Kia Joorabchian. Ekkert bólaði á formlegu kauptilboði frá Joorabchian en Eggert lagði fram formlegt tilboð í gær sem var samþykkt og var gengið frá kaupunum í morgun.

Eggert sagði í samtali við NFS að 85 milljónir punda væru greiddar fyrir hlutabréf í West Ham og svo yfirtækju íslensku fjárfestarnir skuldir sem nema um 23 milljónum punda þannig að um væri að ræða samtals 108 milljónir punda.

West Ham er nú í fimmta neðsta sæti úrvaldeildarinnar og fallið bæði úr Evrópukeppni félagsliða og enda deildarbikarnum. Framtíð þjálfarans, Alans Pardews, er trygg að sögn Eggerts. Þeirra bíður nú erfitt verkefni.

Kaup Eggerts og félaga á West Ham hafa vakið athygli ytra og hafa enskir miðlar leitað upplýsinga hjá íslenskum íþróttafréttamönnum. Hörður Magnússon, íþróttafréttamaður á NFS og Sýn, var til að mynda í viðtali á Sky-sjónvarpsstöðinni í morgun og þar sagði hann að West Ham væri ekki þekktasta enska liðið á Íslandi en að eldri kynslóðir knattspyrnuáhugamanna myndu eftir Bobby Moore, Martin Peters og Geoff Hurst. Hann teldi að Eggert þekkti sögu West Ham og hefðir nokkuð vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×