Menning

Litið til veðurs í ASÍ

Guðrún Kristjánsdóttir myndlistarmaður.
Guðrún Kristjánsdóttir myndlistarmaður.

Myndlistarkonan Guðrún Kristjánsdóttir opnar sýningu í Ásmundarsal og Gryfju Listasafns ASÍ í dag. Sýningin ber yfirskriftina „Veðurfar“ en listamaðurinn hefur hefur um árabil fágað og dýpkað nálgun og sýn á landslagsmyndina, bæði í málverkum sínum og með úrvinnslu í aðra miðla.

Kannski má enn líta á málverkin sem ítarlegustu úrvinnsluna þar sem fletirnir spila við olíulit og striga en Guðrún vinnur jöfnum höndum í þrykk, myndbönd og flytur verkið beint á vegg eða rúðu, með málningu eða útskorinni fólíu.

Á sýningunni beitir Guðrún öllum þessum aðferðum til að teikna fram umlykjandi mynd, eins konar umhverfi, þar sem áhorfandanum er sökkt inn í veröld veðurskrifaðra forma og hugleiðinga um umhleypingar, birtu og skuggaspil. Áhorfandinn er kallaður inn í veðraheim sem er mjög heimilislegur og hversdagslegur Íslendingum. Um leið opnast heimur sem er fjarstæðukenndur þegar hið alltumlykjandi munstur er komið inn á gafl.

Guðrún les í landslagið eftir veðurfarinu og fylgist með því hvernig munstur umhleypinga, svo sem snjómunstur í leysingum og skaflar í hlíðum sækja á hugann eins og skrift í bók sem við ekki skiljum. Sú skrift verður ekki lesin eins og bók en krefst þó eins konar læsis sem er meira í ætt við lestur á blindraletri, í samþættingu upplifunar og afstrakt hugsunar.

Sýningin stendur til 25. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×