Menning

InfoPHR opnar á Korpúlfsstöðum

Níu listamenn frá þremur borgum hafa starfað að verkefninu „Alien Structure in Urban Landscape“ síðastliðin þrjú ár. Reykjavík er lokaviðkomustaður þess.
Níu listamenn frá þremur borgum hafa starfað að verkefninu „Alien Structure in Urban Landscape“ síðastliðin þrjú ár. Reykjavík er lokaviðkomustaður þess.

Sýningin InfoPHR opnar í sýningarrými Sambands íslenskra myndlistarmanna á Korpúlfsstöðum á morgun. Þar sýna níu listamenn frá Reykjavík, Hamborg og Prag afrakstur samstarfs síns síðastliðin þrjú ár.

Verkefnið ber heitið „Alien structure in Urban Landscape“ og hefur að viðfangsefni sínu borgarmenningu og aðkomu fólks að samfélagi ólíkra borga, að því er segir í fréttatilkynningu. Listamennirnir níu hafa hist reglulega á því tímabili og unnið að verkum um borgir í samræðu hver við annan.

Sýningar á vegum verkefnisins hafa áður verið settar upp í Skolska28 í Prag, vorið 2006, og í Westverk í Hamborg um haustið 2006. Sýningin á Korpúlfsstöðum er lokaáfangi verkefnisins, en hún samanstendur af verkum sem unnin hafa verið í Reykjavík, ásamt verkum frá Prag og Hamborg. Þar ægir saman ljósmyndum, kvikmyndum, teikningum, málverkum og rýmisverkum, sem öll miða að því að varpa ljósi á hið ókunna og sérkennilega í menningu borgarinnar.

Listamennirnir frá Prag eru þau Jan Bartos, ljósmyndari, Marcela Steinbachova, arkítekt og Jiry Thyn, ljósmyndari. Frá Reykjavík koma myndlistarmennirnir Hlynur Helgason, Eygló Harðardóttir og Kristín Reynisdóttir. Þau Rupprecht Matthies, myndlistarmaður, Corinna Koch, listamaður og Anna Guðjónsdóttir, myndlistarmaður, eru hins vegar fulltrúar Hamborgar.

Sýningin opnar kl 19 á morgun. Hún verður opin frá 13-19 bæði laugardag og sunnudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×